Golf

Rory McIlroy fagnaði með „loftfimmu“ og yfir 800 milljónir söfnuðust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rory McIlroy fagnar högginu sem færði honum, Dustin Johnson og samtökum amerískra hjúkrunarfræðinga sigurinn í TaylorMade Driving Relief holukeppninni.
Rory McIlroy fagnar högginu sem færði honum, Dustin Johnson og samtökum amerískra hjúkrunarfræðinga sigurinn í TaylorMade Driving Relief holukeppninni. Getty/Mike Ehrmann

Rory McIlroy og Dustin Johnson fögnuðu sigri í TaylorMade Driving Relief holukeppni sem fram fór um helgina á vegnum PGA mótaraðarinnar.

Þetta var fyrsta „lifandi“ golfkeppnin í sjónvarpinu í langan tíma en það styttist í það farið verður að keppa aftur á bandarísku mótaröðinni í golfi. Holukeppnin fór fram á Juno Beach golfvellinum í Flórída fylki.

Stærstu sigurvegararnir voru þó góðgerðasamtökin sem safnað var fyrir en alls söfnuðust yfir 5,5 milljónir Bandaríkjadala eða meira en 800 milljónir íslenskra króna.

Rory McIlroy og Dustin Johnson voru saman í liði. Liðið skipað þeim Matthew Wolff og Rickie Fowler urðu að sætta sig við tap en Fowler var þó sá kylfingur sem náði flestum fuglum eða sjö. Wolff var síðan sá sem náði lengstu upphafshöggunum sem skilaði hans góðgerðasamtökum auka 450 þúsund Bandaríkjadölum.

Rory McIlroy og Dustin Johnson tókst reyndar ekki að tryggja sér sigurinn í sjálfri holukeppninni heldur þurfti umspil þar sem farið var í nándarkeppni.

Golfbolti McIlroy endaði þrettán fetum frá holunni en næstur honum var Matthew Wolff sem var átján fetum frá holunni. Dustin Johnson endaði í sandholu og Rickie Fowler hitti ekki flötina.

Rory McIlroy tryggði sínu liði sigurinn með því að komast næst holunni og fagnaði með því að taka eina „loftfimmu“ enda pössuðu menn upp á fara ekki of nálægt hverjum öðrum.

„Ég er stoltur af því að vera hluti af viðburði sem skemmti fólki heima um leið og við söfnuðum peningi fyrir fólk sem þarf á því að halda,“ sagði Rory McIlroy.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×