Körfubolti

ÍR riftir samningnum við Sigurð Gunnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson í einum leiknum á móti Njarðvík. Vísir/Bára

Sigurður Gunnar Þorsteinsson er án samnings eftir að ÍR rifti samningi við hann eftir leiktíðina í Dominos-deild karla sem var blásin af vegna kórónuveirunnar. Sigurður greindi fyrst frá þessu á Instagram-síðu sinni.

Í samtali við Körfuna staðfesti hann tíðindin og segir að Breiðhyltingar hafi sagt upp samningnum við hann eftir leiktíðina en hann varð fyrir því óláni að slíta krossband í upphafi tímabilsins og spilaði lítið sem ekkert.

Hann var einn aðalmaðurinn í liðinu sem fór alla leið í úrslitarimmuna gegn KR tímabilið 2018/2019 en eftir stutt stopp í Frakklandi kom hann aftur heim í ÍR og varð fyrir því óláni að meiðast, eins og fyrr segir.

Hann segir í samtalinu við Körfuna að nú hefjist leit að nýju liði en hann viti ekki hvar hann leiki á næstu leiktíð. Hann sé þó allur að jafna sig af meiðslunum og hann verði klár í fyrsta leik er boltinn fer aftur að rúlla í haust.

ÍR-ingar sömdu í gærkvöldi svo við Sæþór Elmar Kristjánsson en hann er uppalinn hjá félaginu. Samningurinn gildir til tveggja ára en hann hefur verið fastamaður í liðinu síðustu ár.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.