Skoðun

Stolt af Samfylkingunni

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Um næstu helgi verða prófkjör í Samfylkingunni í fjórum kjördæmum, í Reykjavík, Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi. Stillt verður upp í tveimur kjördæmum.

Óþarft er að fjölyrða um erfiða stöðu Samfylkingarinnar og ef til vill ögurstund. Ekki síst þess vegna hef ég glaðst innilega við að fylgjast með nýrri kraftmikilli kynslóð jafnaðarmanna sem mætt er til leiks í fyrrnefndum prófkjörum. Þau eru mörg, þau eru ungt, hugrakkt, sjálfsöruggt hugsjónafólk sem stígur fram og er tilbúið til að leggja jafnaðarmannaflokknum lið þrátt fyrir mjög erfiða stöðu. Ungar konur og karlar með margháttaða reynslu og víðtæka menntun á mörgum sviðum. Fólk sem ekki endilega kemur innan úr Samfylkingunni, heldur úr samfélaginu þar sem það hefur unnið að hugsjónamálum sínum.

Við sem berum framtíð Samfylkingarinnar fyrir brjósti og trúum á mikilvægi erindis hennar verðum að styðja þetta unga fólk í prófkjörunum. En ekki síður eftir prófkjörin, því ekki eru nógu mörg þingsæti til skiptanna sem stendur. Það má ekkert þeirra hverfa frá án þess að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og þau tækifæri getum við boðið. Samfylkingin er gott samfélag.

Flokkurinn þarf hins vegar endurnýjun. Við þurfum á þessari nýju kynslóð að halda til liðs við eldri kempur okkar, svo sem mína góðu félaga jafnaðarmennina Árna Pál Árnason og hinn síunga Össur Skarphéðinsson, sem ég styð báða heils hugar.

Ég er bjartsýn á framtíð Samfylkingarinnar – Jafnaðarmannaflokks Íslands. Flokkur sem laðar til sín ungt hæfileikafólk í þeim mæli , sem ofan greinir, á framtíðina fyrir sér.

Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×