Erlent

Veggjakrotari skaut tvo í Mexíkó

Óli Tynes skrifar

Mexíkóskur veggjakrotari skaut í dag tvo menn til bana þegar athugasemdir voru gerðar við krot hans. Eftir snarpan skotbardaga við lögregluna var hann særður og yfirbugaður.

Veggjakrotarinn var að athafna sig í neðanjarðarlestarstöð í Mexíkóborg þegar aðvífandi lögreglumaður stuggaði við honum. Krotarinn dró þá upp skammbyssu og skaut hann til bana. Einnig vegfaranda sem reyndi að stöðva hann.

Þvínæst stökk maðurinn inn í opinn lestarvagn og hélt skothríðinni áfram. Hann særði þá fimm manns til viðbótar. Skelfingu lostnir farþegar æddu út úr lestarvagninum og reyndi að forða sér.

Meðan maðurinn skaut á fólkið hrópaði hann að hann hefði ekkert á móti því persónulega, hann væri aðeins á móti ríkisstjórninni.

Fleiri lögreglumenn þustu á vettvang og það hófst snarpur skotbardagi. Byssumaðurinn varð fyrir skoti og eftir það gat lögreglan yfirbugað hann. Hann var fluttur á brott í sjúkrabíl.

Lögreglan segir að maðurinn heiti Louis Castillo og sé þrjátíu og átta ára gamall. Engin skýring hefur verið gefin á viðbrögðum hans.

Yfirvöld í Mexíkó eiga í blóðugu stríði við gengi eiturlyfjabaróna en skotárásir eins og þessi eru sjaldgæfar í höfuðborginni.

Lögreglustjóri borgarinnar segir að eittþúsund lögreglumenn til viðbótar verði sendir til að hafa eftirlit með lestarstöðvum og að þeir muni hafa heimild til þess að leita á fólki ef þeim sýnist svo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×