Innlent

Vegna tafa fá sum börn ekki að hitta foreldra sína í fleiri ár

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður
Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður
„Þetta eru svo viðkvæm mál. Úrskurðir hjá sýslumanni varðandi til dæmis umgengi foreldra við barn eru kæranlegir til innanríkisráðuneytisins og sú staða getur verið uppi að foreldrar fái ekki að hitta barnið sitt í mörg ár vegna seinagangs hjá ráðuneytinu,“ segir Helga Vala Helgadóttir héraðsdómslögmaður, sem gagnrýnir ástandið í innanríkisráðuneytinu.

„Mér barst til dæmis bréf frá innanríkisráðuneytinu í vikunni þar sem fram kemur að ráðuneytið hafi móttekið kæru vegna úrskurðar sýslumanns í júní 2014 eða fyrir ellefu mánuðum,“ segir Helga Vala en bréfið er um kæru skjólstæðings hennar sem varðar barn.

„Kæra er varðar barn á alla jafna að sæta flýtimeðferð innan stjórnkerfisins enda hagsmunir þess brýnir.“

Í umræddu bréfi segir að vegna fjölda mála ætli ráðuneytið að dráttur verði á afgreiðslu málsins og að óbreyttu megi búast við ákvörðun innan níu mánaða.

„Þetta þýðir að biðin eftir úrskurði gæti orðið enn þá lengri ef það verður mikið að gera hjá ráðuneytinu,“ segir Helga Vala og bætir við að þetta sé mjög bagalegt fyrir bæði börn og foreldra. „Það bara verður að fjölga starfsfólki innan ráðuneytisins til að annast kærumálin. Þetta er algjört ófremdarástand og hefur verið lengi.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×