Skoðun

Gengið í takt

Sveinbjörn Claessen skrifar

Undanfarin misseri hafa byggingaframkvæmdir verið í blóma og þá einkum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin eru mýmörg og af öllum stærðum og gerðum, allt frá hátæknisjúkrahúsi til algengari verkefna á borð við fjöleignarhús. Fjöldi verkefna endurspeglast sennilega einna best í þeim fjölda byggingarkrana sem gnæfa yfir verkstaði víða í borginni. Langflest verkefnanna eiga það sammerkt að samningur verkkaupa annars vegar og verktaka hins vegar liggur að baki þeim. Undantekningarlaust kveða slíkir samningar á um skilafrest(i) og oft líka verkáætlanir og tafabætur. Mikilvægasta skylda verktakans, ásamt þeirri að skila fullnægjandi verki, er að afhenda það á umsömdum tíma enda kann það að valda miklum skaða ef skilað er of seint, t.a.m. ef verslun opnar ekki fyrir jólin eða fasteignafélag getur ekki staðið við leigusamning. Endurspeglast það iðulega í fjárhæð tafabóta sem verktaka kann að vera gert að greiða dragist verkið á langinn.

Ófögnuðurinn sem veirupestin er og geisar nú um allan heim hefur vafalaust áhrif á framvindu verkframkvæmda hér á landi, líkt og annars staðar. Samkomubannið þessa dagana kann eðli máls samkvæmt að torvelda störf verktaka og setur ugglaust strik í verkframvindu þeirra. Þá er ekki útilokað að „ástandið“ komi til með að hafa áhrif á tilkostnað við verk, til dæmis verð á ýmsu efni og flutningum. Í ljósi þessa er ekki úr vegi að hvetja aðila verksamninga til þess að setjast niður og ræða þýðingu framangreinds. Fyrirséð er að verktakar fari fram á lengri verktíma og jafnvel breytt uppgjör vegna áður ófyrirséðs kostnaðar sem leiðir með beinum eða óbeinum hætti af Covid19 veirunni. Að sama skapi er ekki útilokað að með samningi taki verkið breytingum vegna hinna breyttu aðstæðna.

Að mati þess sem ritar þessar línur er beinlínis bráðnauðsynlegt að aðilar gangi í takt í viðræðum sem þessum með tillitssemi og skilning á aðstæðum að leiðarljósi. Að öðrum kosti er hætt við að til óþarfra og tímafrekra deilna komi með ófyrirséðum málalyktum. Samvinna og skilningur á aðstæðum viðsemjenda mun þegar allt kemur til alls skila betri árangri.

Höfundur er lögmaður á Landslögum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.