Handbolti

Yfirlýsing frá Þrótti: Engin formleg umræða farið fram innan aðalstjórnar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þróttur endaði í 5. sæti Grill 66 deildar karla í vetur.
Þróttur endaði í 5. sæti Grill 66 deildar karla í vetur. mynd/facebook-síða þróttar

Það hefur gustað í kringum Þrótt í dag eftir að áform voru uppi um að leggja handknattleiksdeild félagsins niður. Staðan er hins vegar önnur segir í tilkynningu á vef félagsins.

Vala Valtýsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Þróttar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að það væri búið að leggja deildina niður. Hún benti á Finnboga Hilmarsson, formann aðalstjórnar félagsins, sem sagði stöðuna erfiða og það væri erfitt að halda starfseminni út.

Mikið var rætt um ákvörðunina á samfélagsmiðlum í dag og leikmenn félagsins lýstu meðal annars yfir óánægju sinni með ákvörðunina.

Síðdegis birtist svo fréttatilkynning á heimasíðu félagsins þar sem greint var frá því að ekki væri búið að taka ákvörðun um framtíð handknattleiksdeildarinnar.

„Engin ákvörðun hefur verið tekin um að leggja niður handboltann í Þrótti og engin formleg umræða hefur farið fram innan aðalstjórnar Þróttar. Málefni handboltans í félaginu verða tekin fyrir á næsta fundi aðalstjórnar eftir páska,“ sagði í tilkynningunni.

Eina starfsmanni handknattleiksdeildarinnar sem var í fullu starfi var sagt upp á dögunum og segir í tilkynningunni að það tengist ekki niðurlagningu deildarinnar heldur „ljóst fyrir nokkru síðan að æfinga – og keppnistímabil allra aldursflokka, þ.m.t. í meistaraflokki, yrði ekki klárað með eðlilegum hætti að þessu sinni.“

Yfirlýsinguna má lesa í heild sinni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×