Skoðun

Þarf endi­lega að fleygja ein­hverjum út­byrðis í þetta sinn?

Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Ragnar Þór Ingólfsson skrifa

„Við erum öll í sama bátnum“ hefur verið sagt svo oft að það er orðið álíka þvælt og „fordæmalaust ástand“. Það síðarnefnda er þó alveg satt, því ástandið er svo sannarlega fordæmalaust, en þetta með bátinn er meira vafamál og stóra spurningin er sú hvort við fáum öll að vera í bátnum eða hvort einhverjum verði fleygt útbyrðis til að skapa „aukið rými“ fyrir aðra.

Þekktur leikur gengur út á að ákveða hvaða farþegar um borð í björgunarbáti eigi skilið að lifa eða deyja þegar plássið er ekki nægt í honum. Einnig eru til útgáfur af þessum leik sem snúast um hverjum eigi að bjarga, ef aðeins er hægt að bjarga tíu, en mun fleiri eru að drukkna í sjónum.

Samkvæmt Wikipedia var þessi leikur notaður til að sýna fram á mismunandi virði einstaklinga, m.a. með tilliti til „auðlindadreifingar“ eða skiptingar auðs, og reglur hans byggðu m.a. á kynþáttafordómum. Í fyrstu útgáfum leiksins var þeim því fyrst hent frá borði sem voru af „röngum“ kynþætti og þegar búið var að „hreinsa“ þá burt var farið að taka tillit til annarra þátta eins og t.d. aldurs og menntunar. Þetta er ekki nákvæm útlistun á þessum (ljóta) leik, en engu að síður inntak hans.

Að vera, eða vera ekki, öruggur í bátnum

Sem betur fer er stór og jafnvel stærsti hluti Íslendinga öruggir í bátnum Ísland í þeim þrengingum sem nú ganga yfir. Þetta er fólkið sem nú kaupir heita potta og ræðst í framkvæmdir heima hjá sér og nýtir sér þar með endurgreiðslu virðisaukaskatts um leið og það skapar fólki atvinnu sem það myndi annars ekki hafa.

Þessu ber að sjálfsögðu að fagna, því þeim mun fleiri sem eru öruggir þeim mun betra fyrir okkur öll, bæði þjóðfélagið og hagkerfið.

En hvað á að gera við alla hina? Hvað á að gera við þá sem eru við það að detta útbyrðis? Á að bjarga þeim? Hvað ef það þrengir að okkur hinum ef þau eru toguð aftur um borð? Á samt að bjarga þeim? Eða er kannski bara best og að ýta aðeins við þeim og „leyfa“ þeim að falla?

Stóra spurningin er hvort við ætlum að sigla þessari þjóðarskútu saman, öll í sama bátnum, eða láta það afskiptalaust þó einhverjum sé ýtt fyrir borð?

Við sem þjóð verðum að gera þetta upp við okkur og ríkisstjórn Íslands verður að svara þessari spurningu, því það veltur á svari hennar hvernig hún nálgast þetta erfiða og flókna verkefni sem Covid-19 hefur leitt yfir okkur.

Að þessu sögðu er ljóst að alveg sama hversu góðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verða þá munu einhverjir lenda í meiri vandræðum en aðrir, jafnvel miklum vandræðum, en það hvernig þau vandræði eru meðhöndluð, ræðst alfarið af afstöðunni til þessarar spurningar.

Það er t.d. gríðarlegur munur á því hvort björgunarhringjum er hent út eða fólk lamið í burtu með árunum, eins og var í raun gert eftir síðasta hrun.

Má þrengja að og minnka pláss þeirra öruggu á bátnum?

Eftir bankahrunið 2008 var fjölmörgum ýtt frá borði. Sumum tókst að svamla í smástund en flestir gáfust upp á að troða marvaðann og „drukknuðu“ á endanum í skuldafeninu sem þeim var búið.

Við vonum að okkur fyrirgefist þessar samlíking við drukknun en við teljum hana alveg eiga rétt á sér. Að vera í vonlausu ástandi þar sem enga hjálp er að fá, er eins og að troða marvaða úti á hafi þar sem hvergi sér til lands. Drukknunin kemur með uppgjöfinni þegar þú áttar þig á því að allt er glatað og engin von og búið sé að dæma þig úr leik í samfélagi, sem metur réttindi þín einskis og er tilbúið að fórna þér svo aðrir í bátnum hafi meira pláss til umráða.

Sumum sem lentu í þessu hefur sem betur fer tekist að „rísa upp“ á ný og skapa sér nýtt líf, en öðrum ekki. Það eru margir sem munu aldrei bera þess bætur að hafa verið fórnað fyrir pláss annarra og, til að bæta gráu ofan á svart, á þetta fólk mjög erfitt með að treysta skipstjórum skútunnar.

Skaðinn sem þetta fólk varð fyrir er ekki aðeins þeirra eigin, heldur þjóðfélagsins alls.

Fyrir utan „óbeinan skaða“ sem felst í lélegri heilsu, niðurbroti og brostnum vonum, skaða sem aldrei verður metin til fjár, er líka til skaði sem hægt er að mæla í beinhörðum peningum.

Fólk sem missir allt sitt þarf oft að fá einhverskonar bætur á kostnað þjóðfélagsins. Fólk sem missir heilsuna eða upplifir kulnun, þarf að fara í veikindaleyfi og jafnvel á örorku í framhaldinu og með því eykst ennþá beinn kostnaður þjóðfélagsins. Börn sem ólust upp við „marvaða“ foreldra sinna, bera þess mörg hver merki sem t.d. kemur fram í ótta og kvíða fyrir framtíðinni. Að hjálpa þeim hefur líka í för með sér kostnað fyrir samfélagið og ekki bara þann sem mældur er í peningum.

Allt þetta fólk á alla okkar samúð og stuðning og við vonum að enginn lesi annað úr orðum okkar. Það þarf hins vegar að koma ríkisstjórninni í skilning um að það að fórna heimilum, afkomu einstaklinga og framtíð, fyrir hagnað banka og fyrirtækja, hefur gríðarlegan kostnað í för með sér. Hann kemur kannski ekki alveg strax, en hann kemur og hann getur orðið mjög mikill – ekki síst sá fjárhagslegi.

Það skýtur líka skökku við að þeir sem hagnast hafa jafn gríðarlega á fórnum þessa fólks og raun ber vitni, virðast vera algjörlega stikkfrí þegar kemur að því að aðstoða það. Þegar lífstarf þessara fjölskyldna er á annað borð komið í þeirra hendur geta þeir notað það að vild til að skapa sér sjálfum meira pláss á efsta þilfari um borð í bátnum, þeim sama og við erum öll í, eða þeir geta hreinlega keypt sér nýjan bát, þannig að tilvera þeirra sé algjörlega óháð okkur hinum – nema þegar þá vantar fóður. Fínn bónus það fyrir „vel“ unnin störf.

Á meðan bankarnir hafa hagnast um 650 milljarða frá hruni, á fjölskyldunum sem þáverandi ríkisstjórn taldi „ásættanlegan fórnarkostnað“, hefur samfélagið þurft að bera kostnaðinn af þessum gróða. Svo ekki sé minnst á gjaldið sem þessir tugir þúsunda einstaklinga hafa greitt sem aldrei verður mælt eða metið til fjár - líf, hamingja, öryggi, hugarró og framtíðarvonir, svo nokkuð sé nefnt.

Minnsti skaðinn er í raun sá fjárhagslegi, en þar sem þeir sem ráða ferðinni virðast hugsa allt í peningum og „Excel skjölum“, þarf að fá þá til að skilja þann beinharða kostnað sem þjóðfélagið ber, verði hagsmunir banka, fjármálafyrirtækja og fjárfesta, teknir fram yfir hagsmuni heimila og einstaklinga.

Allir á sama farrými

Það er ekkert að því að krefja bankana um að deila kjörum með okkur hinum.

Það er hreint og beint sjálfsögð krafa að þeir geri það!

Ef einhverjir í þessu þjóðfélagi hafa borð fyrir báru, eru það þeir.

Við erum ÖLL að fara í gegnum erfiða tíma og það sem bankarnir geta gert er t.d. að þegar greiðslustöðvun lýkur bæti þeir engum kostnaði og vöxtum ofan á lánið, heldur leyfi lántakandanum að halda áfram greiðslum þar sem frá var horfið. Mánuðunum sem féllu úr mætti í staðinn bæta aftan á lánið. Síðan þurfa bankar og lífeyrissjóðir að bjóða uppá allt að 12 mánaða framlengingu á greiðsluskjóli á sömu kjörum og ofan er lýst þar sem ljóst er að niðursveiflan mun verða dýpri og lengri en áður var spáð.

Gallinn við þetta fyrirkomulag væri einungis sá að bankar og lífeyrissjóðir myndu ekki hagnast jafn mikið og þeir myndu annars gera en ekki væri um tap að ræða. Til lengri tíma litið myndu allir, bæði bankinn og þjóðfélagið, hagnast á fyrirkomulagi sem þessu.

Ríkisstjórnin getur stutt eða sett lög sem fresta nauðungarsölum. Frestun á nauðungarsölum gæti verið til eins árs og að því loknu skoðað hvort þörf væri á framlengingu eða ekki.

Bent hefur verið á að nauðungasölur sem núna séu komnar í ferli séu ekki vegna Covid-19 og það er alveg rétt athugað. En þurfum við endilega að setja fólk út á guð og gaddinn í ástandi eins og núna er þegar allir eiga við nóg annað að stríða? Er ekki bara mannúðlegt að leyfa fólki að sitja í skjóli heimilis síns a.m.k. á meðan afleiðingar veirunnar koma í ljós?

Ríkisstjórnin þarf einnig að setja þak á verðtryggingu lána og leigu heimilanna. Slíkt þak kemur ÖLLUM heimilum til góða, líka þeim sem eru með óverðtryggð lán, þar sem verðtryggingin hefur einnig áhrif á þau.

Margir upplifa núna kvíða og ótta fyrir framtíðinni. Kvíði er vont ástand og ef hægt er að lægja hann hjá þúsundum, þá er sú aðgerð fyllilega þess virði, jafnvel þó hún sé óþörf eins og bæði fjármálaráðherra og Seðlabankastjóri hafa haldið fram, enda hefði hún þá engin áhrif. Í slíkri aðgerð fælist ekki vantraust á Seðlabankanum, heldur þvert á móti væri þetta traustsyfirlýsing um að hægt sé að byggja á og treysta áætlunum hans.

Hver græðir og hver tapar?

Förum aðeins yfir hvernig þjóðfélag við viljum sjá þegar allt fer að færast í eðlilegt horf.

Hver tapar og hver græðir ef þúsundir missa heimili sín eins og eftir síðasta hrun?

  • Bankarnir græða og geta kannski stækkað bátinn sinn með öðru þilfari með enn betra útsýni.
  • Fjölskyldur myndu tapa og standa uppi heimilislausar með tilheyrandi afleiðingum.
  • Leigufélög myndu fá íbúðir þessara fjölskyldna á „sérstökum kjörum“ og gætu farið að mala gull á fjölskyldum sem hafa misst heimili sín. Leigufélög og „fjárfestar“ myndu græða.
  • Þjóðfélagið tapar, því hvert á allt þetta fólk að fara? Finna þyrfti alls konar (kostnaðarsamar) leiðir og „félagslega pakka fyrir viðkvæma hópa“ í von um að það komi aftur undir sig fótunum.
  • Fjölskyldur/einstaklingar væru niðurbrotnar og í sárum sem erfitt er að vinna sig upp úr. Skaði þeirra væri mikill, bæði fjárhagslegur og óbætanlegur.

Er þetta þjóðfélagið sem við viljum þegar loksins sér til sólar? Eða gætum við gert þetta öðruvísi í þetta sinn og haldið öllum á floti og í bátnum.

Hver tapar og hver græðir ef engin missir heimili sitt vegna Covid-19?

  • Bankarnir tapa ekki en munu ekki græða jafn mikið og annars. Þannig leggðu þeir sitt af mörkum vegna ástandsins.
  • Fjölskyldur héldu heimilum sínum og gætu komið sér aftur á fætur þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Þó það tæki sumar þeirra kannski smá tíma þá væru þær í öruggu skjóli á meðan.
  • Þjóðfélagið myndi græða, því færri myndu þurfa á félagslegri aðstoð að halda og færri myndu veikjast vegna álagssjúkdóma.
  • Börn myndu „græða“. Börn búa við mismunandi aðstæður sem við sem samfélag höfum ekki alltaf stjórn á, en alveg sama hvernig á það er litið er ekki hægt að setja verðmiða á öryggi barna og vellíðan og þessu getum við stjórnað. Þetta skiptir öll börn máli en ekki síst þau sem þegar standa höllum fæti og það er lágmark að stjórnvöld geri aldrei slæmt ástand verra með aðgerðum sínum.

Í grunninn á það sama við um fyrirtækin. Ef þau eða starfssemi þeirra færist á færri hendur gætum við horft fram á aukið atvinnuleysi og erfiðleika, sem einnig munu kosta þjóðfélagið mikla fjármuni. Með því að gefa aðeins eftir af gjöldum og kostnaði, gætu ríkið, bankar og sveitarfélög, gefið þeim tækifæri til að rísa aftur sterkari þegar vorar á ný og það hlýtur að vera okkur öllum til hagsbóta.

Eftir vetur kemur vor

Það má líkja ástandinu núna við vetur þegar allt leggst í dvala. En á eftir vetri kemur vor og þá þurfum við öll, bæði heimili og fyrirtæki, að geta teygt okkur upp úr moldinni í átt til sólar án þess að það komi einhver og stígi á okkur og kæfi lífið. Við verðum öll að fá tækifæri til að vaxa upp á ný án þess að þá leggist á okkur kröfur vegna „Force Majeure“ ástands sem ekkert okkar ber neina sök á.

Það er ekki ásættanlegt að þá bíði bankarnir og týni upp alla græðlingana og geti svo selt þá og hagnast á þessum fordæmalausa ástandi.

Auðvitað þarf einhverjar útfærslur en ef velferð okkar allra er í forgangi, þá leysast alls konar flækjur af sjálfu sér á leiðinni.

Ef hins vegar markmiðið er að verja fjármálafyrirtækin og fjárfestana með öllum ráðum, er voðinn vís og þá verður langt þangað til að það grænkar aftur á Íslandi.

Við erum öll þess virði að fá okkar pláss um borð!

Almenningur er ekki fóður fyrir bankana!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir er formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og Ragnar Þór Ingólfsson er formaður VR.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.