Körfubolti

Möguleiki að NBA hætti við yfirstandandi leiktíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James og liðsfélagar hans í Los Angeles Lakers stefndu á titilinn. Nú er óvíst hvort þeir fái tækifæri til þess.
LeBron James og liðsfélagar hans í Los Angeles Lakers stefndu á titilinn. Nú er óvíst hvort þeir fái tækifæri til þess. Vísir/EPA

Upprunalega var NBA-deildin sett í 30 daga pásu um miðjan mars. Nú er ljóst að sá tímarammi gengur engan veginn upp og fresta þarf deildinni ótímabundið. Ástandið í Bandaríkjunum vegna COVID-19 versnar dag frá degi og alls óvíst hvenær íþróttaviðburðir þar í landi geti farið aftur af stað.

Nú er möguleiki á því að forráðamenn NBA-deildarinnar taki einfaldlega þá ákvörðun að aflýsa yfirstandandi leiktíð. Þetta segir Brian Windhorst á ESPN en CBS Sports greindi frá.

„Leikmannasamtökin og forráðamenn deildarinnar hafa verið í viðræðum undanfarna viku. Ég hef talað við báða aðila og það er ljóst að forráðamenn deildarinnar eru að skoða það að hætta við yfirstandandi leiktíð. Svo lengi sem það næst samkomulag sem gerir þeim það kleift,“ segir Windhorst. Hann segir að það sé ekki mikil bjartsýni innan NBA-samfélagsins.

„Þeir þurfa ekki að hætta við leiktíðina sem stendur en þeir vilja halda möguleikanum opnum þar sem óvíst er hvenær hægt er að hefja leik að nýju. Sem stendur er mikil svartsýni varðandi það hvort deildin geti farið aftur af stað á tilsettum tíma. Nú snýst umræðan aðallega um það hvernig deildin sjálf, liðin og leikmenn komi fjárhagslega út úr þeim aðstæðum fari svo að hætt verði við leiktíðina.“

Forráðamenn deildarinnar hafa mestar áhyggjur af því að bíða of lengi og þar með muni ákvörðun þeirra einnig hafa áhrif á næstu leiktíð. Möguleiki er á því að næsta leiktíð, 2020-2021, hefjist ekki fyrr en um jólin. 

Deildin hefur áður skoðað þann möguleika og nú gæti verið að kórónufaraldurinn taki í raun þá ákvörðun fyrir forráðamenn deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×