Innlent

Hundrað kennarar ræða sérsamninga

Margir grunnskólakennarar vilja skoða sérsamninga á meðan aðrir telja þá ganga þvert á niðurstöðu síðustu kjaraviðræðna, segir skólastjóri Sjálandsskóla í Garðabæ. Um hundrað kennarar mættu á málstofu Kennarafélags Reykjavíkur um bókun fimm í kjarasamningnum sem gefur svigrúm til sérsamninga í eitt ár. Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla með sérsamninga, segir að hann telji kennara ekki telja út í hött að gera tilraun til eins árs í skóla og læra af þeirri reynslu: "Þó svo að menn hafa allan fyrirvara í heimi um það, hvort það skili einhverju." Helgi segir um þrjátíu umsóknir um starf í Sjálandsskóla hafa borist. Hann komi til með að ráða um fimm kennara fyrir þá fjörutíu til sextíu nemendur sem verði í skólanum. Samninganefnd kennara og sveitarfélaga hafi enn ekki gefið grænt ljós á sérsamninginn. "Þetta stendur í þeim og menn vilja stíga varlega til jarðar, því sérsamningurinn er það mikil breyting á því sem menn hafa verið að vinna í áður," segir Helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×