Innlent

Fækkun banaslysa minni á Íslandi

MYND/Einar Ólason
Fækkun banaslysa hefur verið minni hér á landi síðustu ár en hjá nágrannalöndum okkar samkvæmt nýrri skýrslu Umferðarstofu. Umferðarverkfræðingur segir ýmsar skýringar vera á þessu eins og langt vegakerfi og fáir bílar. Í skýrslu Umferðarstofu fyrir umferðarslys síðasta árs kemur fram að átta af hverjum hundrað þúsund Íslendingum létust í banaslysum. Á sama tíma létust sex af hverjum hundrað þúsund í Noregi og Svíþjóð og sjö í Danmörku og Finnlandi. Haraldur Sigþórsson, umferðarverkfræðingur hjá Línuhönnun og ráðgjafi rannsóknarnefndar Umferðarslysa, segir tölur sem þessar vera breytilegri hér en annars staðar á Norðurlöndunum þar sem við minni íbúafjölda verði meiri sveiflur. Þrátt fyrir það hefur banaslysum fækkað minna hér. Haraldur segir væntanlega margar skýringar á því, t.d. þær að hér á landi er tiltölulega langt vegakerfi, fáir bílar sem nota það og vegirnir byggðir upp af vanefnum. Umhverfi vega sé ekki hreinsað, skortur er á vegriðum og of mikið af einbreiðum brúm, auk þess sem ökumenn eigi til að keyra of hratt vegna hinnar litlu umferðar.  Haraldur segir að 2+1 vegir gætu aukið umferðaröryggi hér á landi til muna, og þá með vegriði á milli aksturstefna, fyrir utan aukna löggæslu og áróður.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×