Innlent

Gamalt fólk lamið og bitið

Rannsóknir erlendis sýna að þrír til fimm af hverjum eitt hundrað öldruðum verða fyrir ofbeldi. Það kom fram á ráðstefnu um ofbeldi gegn öldruðum sem haldin var á Akureyri. Ólafur Þór Gunnarsson, lyf- og öldrunarlæknir á Landspítala-háskólasjúkrahúsi, segir alla öldrunarlækna á landinu hafa séð dæmi um ofbeldi gegn ölduðum: "Bæði þar sem um er að ræða vanrækslu og jafnvel líkamlegt ofbeldi og sannarlega oft þar sem fólk misnotar sér aðstöðu sína til að hafa fé af gömlu fólki." Ólafur segir ofbeldið fjórflokkað: "Því er skipt upp í líkamleg ofbeldi, andlegt ofbeldi, vanrækslu og fjárhagslega misbeitingu." Hann segir algengast að reynt sé að hafa fé af fólki. Haft sé í hótunum eða reynt að ná því með klækjum. Þar fari bæði óskyldir og ættingar fram. "Við sjáum einnig dæmi um vanrækslu. Oftast er hún ekki meðvituð heldur hefur umönnunaraðili ekki aðgang að þeim úrræðum sem þurfa. Við sjáum líka dæmi um andlegt ofbeldi. Talað er niður til fólks eða það lagt í einelti. Einnig hittum við eldra fólk sem hefur verið lamið, hrint, slegið til eða bitið," segir Ólafur. Kristjana Sigmundsdóttir, félagsráðgjafi í útskriftaröldrunarteymi hjá Landsspítala-háskólasjúkrahúsi, segir umræðuna um ofbeldi gegn öldruðum einu bestu forvörnina. Viðhorfið gagnvart öldruðum þurfi að breytast. "Taka þarf á forræðishyggjunni sem ríkt hefur gagnvart öldruðum og þessari þunnu himnu umönnunnar og ofbeldis," segir Kristjana: "Ef við ættum okkur draum hefðum við eitthvert teymi eða stöð þangað sem fólk gæti leitað og tilkynnt um ofbeldi sem ekki er tilkynnt til lögreglu. Við gætum þá tekið á því." Ólafur segir eldra fólk ekki lenda oftar í ofbeldi en fólk á öðrum aldri: "Menn hugsa oft ekki út í það en þegar fólk hefur búið í aðstæðum þar sem ofbeldi hefur viðgengist hættir það ekki þó að einhver fer á eftirlaunaaldur." Rætt verður um ofbeldið í Hádegisútvarpi Talstöðvarinnar á mánudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×