Innlent

Vegagerð í þéttbýli hugsanlega alfarið til sveitarfélaganna

MYND/Valgarður Gíslason

Vegalög eru í endurskoðun með það fyrir augum að færa viðhald og nýbyggingu allra umferðarmannvirkja í þéttbýli alfarið yfir til sveitarfélaganna. Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, segir þetta gert í ljósi fenginnar reynslu af deilum um lagningu Sundabrautar.

Sturla segir það hafa sýnt sig í ákvarðanatöku um legu Sundabrautar að framkvæmdir geti lent í pólitískri sjálfheldu ef ekki sé samstaða og full samvinna milli sveitarstjórnarstigsins og ríkisstjórnarinnar.

Hann segir málið þó ekki einfalt og þarfnist ítarlegrar skoðunar áður en hægt sé að færa þjóðvegina alfarið yfir til sveitarfélaganna. Þannig séu ýmsar vegleiðir mikilvægar tengingar við þjóðvegakerfi landsins, sem áfram verði hjá ríkinu. Þetta eigi sérstaklega við um umferðarmannvirki í útjaðri höfuðborgarsvæðisins sem þjóni umferð frá norðri til suðurs án þess að umferðin eigi endilega erindi inn á höfuðborgarsvæðið. Það sama megi segja um ýmis vegamannvirki í Reykjanesbæ, þar sem umferð liggi til og frá langstærsta alþjóðaflugvelli landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×