Innlent

Verktakar fá 250 milljónir frá borginni vegna kreppu

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður borgarráðs Reykjavíkur.
Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, er formaður borgarráðs Reykjavíkur.

Borgarráð samþykkti á fundi sínum á laugardag drög að 250 milljón króna samkomulagi Reykjavíkurborgar og Samtaka iðnaðarins um verðbætur óverðtryggðra verksamninga.

Reykjavíkurborg gerir umræddan samning til þess að draga úr hættu á að verktakar segi sig frá verkum með tilheyrandi kostnaðarauka fyrir borgina, að fram kemur í bókun borgarstjórnarmeirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks.

Auðvelda fyrirtækjum að ljúka verkefnum fyrir borgina

Verksamningar við borgina til skemmri tíma en eins árs eru óverðtryggðir. Samtök iðnaðarins hafa fyrir hönd þeirra félagsmanna sinna sem gerðu slíka verksamninga krafist að Reykjavíkurborg verðbæti samningana með vísan til brostinna forsenda vegna þróunar verðbólgu og þeirrar kreppu sem nú ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar.

,,Ljóst er að verðbæturnar geta auðveldað fyrirtækjum að ljúka verkefnum sínum fyrir Reykjavíkurborg," segir í bókun meirihlutans.

Samþykkt með atkvæðum fulltrúa meirihlutaflokkanna

Samningsdrögin voru samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Fulltrúar Samfylkingarinnar í ráðinu sátu hjá og fulltrúi Vinstri grænna kaus gegn drögunum. Áheyrnarfulltrúi F-lista lýsti í bókun einnig yfir andstöðu sinni gegn þeim.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×