Skoðun

Hvernig hinsegin fólk er fórnarlömb kynbundins ofbeldis

Ásta Lovísa Arnórsdóttir skrifar
Þegar spurt er hvað felst í kynbundnu ofbeldi þá þykir liggja í augum uppi hvað um ræðir. Karlar sem meiða konur. Einfalt svar innan tvípóla kynjakerfis. Hins vegar er kynbundið ofbeldi örlítið flóknara. Á meðal fórnarlamba leynast fleiri; transfólk, samkynhneigðir og einstaklingar úr öðrum hópum sem ekki falla innan ramma tvípóla kynjakerfisins og gagnkynhneigðrahyggju. Að vissu leyti er ofbeldið sem þessir einstaklingar verða fyrir kynbundið ofbeldi.

Dagleg tilvera okkar er skipulögð samkvæmt kúnstarinnar reglum; sumar þeirra hjálpa til við framgang samfélagsins, en aðrar gera lítið annað en að halda aftur af okkur. Dæmi um eitt af því síðarnefnda er tvípóla kynjahyggja og hið gagnkynhneigða regluveldi sem hafa þróað gríðarlega gagnkynhneigðrarembu og kynvitundarfordóma í samfélaginu. Þó að þessi hugtök séu afar óþjál þá eru þau lýsandi fyrir kerfi sem stór partur af samfélaginu hlýðir hugsunarlaust.

Í huga manneskju sem þjáist af gagnkynhneigðrarembu er fólk með hneigðir til sama kyns brotlegt; brotið felst í því að annar aðilinn í samkynja sambandi hljóti að vera að taka að sér hlutverk hins gagnstæða kyns því að sambönd þurfi að vera samsett af karli og konu. Þetta þykir brotleg hegðun því að karlmenn eiga ekki að lækka sig niður í kvenlegt athæfi og konur þykja ekki nógu góðar til að taka að sér karlmannleg hlutverk. Á sama hátt réttlætir gagnkynhneigðraremba ofbeldi gegn transfólki þar sem staðalmyndir kynjanna eru meitlaðar í stein og allir þeir sem voga sér að hrófla við þeirri valdaskipan sem ákvörðuð er strax við fæðingu skulu gjöra svo vel að þjást fyrir það. Það ætti að vera ljóst að óttinn sem hinsegin fólk vekur hjá þeim sem halda í svarthvíta valdaskiptingu heimsins er rekinn áfram af hreinu og beinu kvenhatri.

Þess vegna er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að gagnkynhneigðraremba og kynvitundarfordómar eru greinar af því stóra tré sem kvenfyrirlitning er, og ofbeldi gagnvart þessum hópi telst kynbundið ofbeldi. Því verða þessi vandamál ekki leyst fyrr en kvenfyrirlitning og kynbundið ofbeldi hefur verið upprætt. Þannig er ráðist að rót vandans í stað þess að sníða nokkrar greinar af, sem myndu vafalaust vaxa aftur áður en langt um liði.




Skoðun

Sjá meira


×