Innlent

Íslendingum fækkar ekki á næstunni

Fæðingar á Íslandi eru orðnar það fáar að þær duga ekki til að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Frjósemin hér er samt sú næstmesta í Evrópu og því nokkuð í að okkur fari að fækka. Fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu þarf að vera um 2,1 barn til að viðhalda mannfjöldanum en meðaltalið er nú rétt undir því marki og hefur verið undanfarin fimm ár. Sífellt fátíðara verður að konur undir tuttugu og fimm ára aldri eignist börn en meðalaldur frumbyrja er nú 26 ár. Þó eru alltaf undantekningar. Fanney Margrétardóttir er nýbökuð móðir, sautján ára gömul og hún ætlar að eiga fleiri. Aðspurð segir hún að sig langi að eignast þrjú til fjögur börn. Fanney segir að þótt litli frumburðurinn seinki framtíðaráætlununum aðeins þá muni hann ekki hindra foreldrana í að ná sínum markmiðum, hún ætlar aftur í skóla til dæmis. Og drengurinn fæddist á heppilegum degi. Fanney segir að hann fæðst á afmælisdegi Kópavogs og að hann sé Kópavogsbúi. 31. desember 2004 voru íbúar á Íslandi tæplega 294.000. Samkvæmt mannfjöldaspá Sameinuðu þjóðanna verða Íslendingar orðnir 330.000 eftir rúm fimmtán ár. En hvernig má það vera ef fæðingar eru ekki einu sinni nógu margar til að viðhalda mannfjöldanum? Ólöf Garðarsdóttir hjá mannfjöldadeild Hagstofu Íslands segir að þetta megi skýra með því að innflytjendum hafi fjölgað og þá sé hið lága fæðingarhlutfall tiltölulega nýtilkomið. Þegar rætt sé um að mannfjöldanum verði ekki viðhaldið sé horft til lengri tíma, þegar þeir árgangar sem koma í heiminn nú fari að eiga börn. Kemur þá að því að okkur fer að fækka? Ólöf segir að samkvæmt mannfjöldspá Hagstofunnar verði fjöldi innflytjenda býsna mikill á Íslandi á næstu áratugum þannig að það líti ekki út fyrir að Íslendingum fækki næstu 20-30 árin en ekki sé vitað hvað gerist svo.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×