Skoðun

Kraftaverk íslenskra Heimsforeldra

Svanhildur Konráðsdóttir skrifar

22.000 börn deyja á degi hverjum af orsökum sem einfalt og ódýrt er að koma í veg fyrir. Við hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, trúum því að þessi tala geti verið núll. Á Degi rauða nefsins - söfnunarátaki Barnahjálparinnar hinn 3. desember síðastliðinn -bættust hátt í 2.000 Íslendingar í ört stækkandi hóp heimsforeldra UNICEF sem deila þessari sannfæringu með okkur.

Hvergi í heiminum styður jafn hátt hlutfall heillar þjóðar við Barnahjálpina með reglulegum hætti og á Íslandi - eða 5% landsmanna. Það er því rík ástæða til að þakka öllum þeim sem lögðu þessu mikilvæga málefni lið; heimsforeldrum sem hafa stutt við bakið á UNICEF í langan tíma, nýjum heimsforeldrum og þeim fjölmörgu sem tóku þátt í söfnuninni með einstökum framlögum.

Það var einnig einbeitt og gjafmilt lið sem lagði hönd á plóg við að gera framkvæmd Dags rauða nefsins mögulega. Án stuðnings fjölda frábærra listamanna, tæknifólks, fyrir­tækja og annarra samstarfs­aðila hefði þessi árangur ekki náðst. Það er því öllum ofangreindum að þakka að UNICEF getur bætt líf og aðstæður enn fleiri nauðstaddra barna í heiminum.

Í söfnuninni hækkaði jafnframt meðalframlag hvers heimsforeldris til UNICEF og er það verulega ánægjuleg þróun - ekki síst í ljósi þess að margir hafa nú minna á milli handanna en oft áður. Það sýnir svo ekki verður um villst að í samhengi við viðfangsefni Barnahjálparinnar erum við mörg aflögufær og tilbúin að leggja okkar lóð á vogarskálarnir til hjálpar þeim sem verr eru settir.

Margir spyrja þeirrar réttmætu spurningar hve miklu máli þróunar­aðstoð skipti og hvort hún virki í raun og veru. Í 64 ár hefur UNICEF verið leiðandi í heiminum í hjálparstarfi fyrir börn. UNICEF starfar á vettvangi í 156 löndum og svæðum og stendur vörð um líf barna frá fæðingu til fullorðinsára. Sem dæmi um dýrmætan árangur í þróunarmálum á síðustu tveimur áratugum má nefna þrennt: Með samstilltu átaki hefur tekist að fækka um þriðjung þeim börnum í heiminum sem deyja áður en þau ná 5 ára aldri. Hér spila margir þættir inn í s.s. bólusetningar og bætt heilsugæsla, malaríuvarnir og bætt menntun mæðra. Í annan stað fjölgar þeim sem hafa aðgang að hreinu vatni því nú þurfa um 2 milljörðum færri manneskjur að drekka mengað og óhreint vatn en raunin var árið 1990. Í þriðja lagi hefur mikilvægur árangur náðst hvað varðar aðgengi barna að menntun - því þrátt fyrir að börnum í heiminum, sem þurfa á grunnmenntun að halda hafi fjölgað í heild, voru 86 milljónir árið 2008 án grunnmenntunar samanborið við 106 milljónir árið 1990.

Það er erfitt að ná utan um svo stórar tölur og sjá í þeim árangur. UNICEF einsetur sér að standa vörð um réttindi sérhvers barns - hvar sem það kann að finnast og við hvers kyns aðstæður það kann að búa. Það er vissa okkar hjá UNICEF að með samskonar samtakamætti og Íslendingar sýndu á Degi rauða nefsins sé hægt að vinna kraftaverk og að framlag hvers einasta heimsforeldris skiptir þar sköpum.






Skoðun

Sjá meira


×