Skoðun

Endurskoðun verksviða í heilbrigðiskerfinu

Katrín Sigurðardóttir og skrifa

Undanfarið hefur verið í umræðunni að aðrar heilbrigðisstéttir en læknar sjái um hluta þeirra verka sem eingöngu læknar hafa sinnt hingað til á Íslandi.

Fulltrúar hjúkrunarfræðinga hafa greint frá hvernig þeir sjá sína fagstétt inni í þeirri mynd og fulltrúar sjúkraþjálfara hafa bent á hvað tíðkast í öðrum löndum varðandi þeirra stétt.

Sem fulltrúi geislafræðinga vil ég koma því á framfæri að geislafræðingar í ýmsum löndum í heiminum sjá um úrlestur tiltekinna rannsókna sem hér á landi eru í höndum lækna. Einnig sjá geislafræðingar um klíníska skoðun sjúklinga sem orðið hafa fyrir minni háttar áverkum, meta hvort þurfi röntgenrannsókn, veita þá meðferð sem þarf eða vísa sjúklingum áfram til læknis ef áverkar kalla á það. Þar sem slíkt fyrirkomulag er, hafa mælingar sýnt að þjónusta við sjúklinga hefur orðið skilvirkari og öruggari. Á Íslandi þarf lítið til að geislafræðingar geti tekið að sér slík verk og er það því raunhæfur möguleiki.

Í gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu er hugsunin að nýta heilbrigðisstofnanir í samræmi við þá tækni og getu sem þær búa yfir. Þannig er ætlunin að hátæknisjúkrahúsið sé notað til flóknari verka sem eru í samræmi við getu þess og svo framvegis. Sama á að gilda um fagstéttir innan heilbrigðiskerfisins, beina á til þeirra verkefnum sem eru í samræmi við þekkingu og getu þeirra. Slík ráðstöfun myndi dýpka þekkingu og auka gæði þjónustu.

Langt er síðan aðrar heilbrigðisstéttir en læknar breyttust úr því að vera lítt menntaðir aðstoðarmenn lækna yfir í að vera vel menntaðar fagstéttir sem vinna sjálfstætt. Áratugir eru síðan menntun þeirra þróaðist yfir í að vera háskólamenntun sem lýkur með háskólagráðum. Það er því löngu orðið tímabært að endurskoða þessi mál með það í huga að nýta fjárfestingu menntunar á sem bestan hátt með gæði og örugga þjónustu við sjúklinga að leiðarljósi.

Sé okkur á Íslandi alvara með að gera heilbrigðiskerfið skilvirkara og verja gæði þjónustu við sjúklinga, á að endurskoða það út frá þessum sjónarmiðum. Mikilvægt er að heiðarlega og faglega sé staðið að endurskoðun sem þessari og að allar fagstéttir séu hafðar með í ráðum. Hagur sjúklinga verður að vera hafður að leiðarljósi en ekki baráttan um völd sem lengi hefur loðað við heilbrigðiskerfið.






Skoðun

Sjá meira


×