Innlent

Í lagi að selja allan Símann

Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður IP-fjarskipta og fyrrverandi forstjóri Norðurljósa telur það ekki ógna hagsmunum almennings að selja Símann í heilu lagi. Þetta kom fram á morgunverðarfundi sem samtökin Konur í stjórnmálum stóð fyrir þar sem rædd var spurningin: Ógnar sala grunnnetsins hagsmunum almennings? Frummælendur ásamt Sigurði voru þeir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar og Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar. Hrafnkell sagði í raun vanta skilgreiningu á hugtakinu grunnneti og að umræðan hafi ekki verið nógu upplýst. Hann sagði hagsmuni almennings vera í mjög góðum málum nú og þótti ólíklegt að það myndi breytast við sölu Símans. Þá taldi hann að samkeppni myndi heldur aukast en annað. Jón Bjarnason þingmaður sem hlýddi á erindin lýsti Hrafnkeli sem trúboða í þessu máli og sagðist ekki skilja hvers vegna verið væri að selja Símann sem skili milljörðum króna í ríkissjóð á hverju ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×