Skoðun

Mis­notkun á opin­berum styrkjum

Kristján Þórður Snæbjarnarson skrifar

Nú eru sum fyrirtæki farin að endurgreiða þann stuðning sem þau hafa nýtt sér frá stjórnvöldum, úr okkar sameiginlegu sjóðum. Það er ljóst að mörg fyrirtæki hafa fengið stuðning sem þurftu ekkert á stuðningi að halda. Það er með ólíkindum að fyrirtækin hafi sýnt þessa hlið á sér, að vera ekki í rekstrarvanda en nýta sér samt sem áður stuðning samfélagsins.

Fyrirtæki eiga mörg hver sjóði til að leita í á erfiðum mánuðum. Mörg fyrirtæki geta lifað af án stuðnings en nýta sér slíkt samt sem áður. Þetta er óþolandi og er með öllu siðlaust. Fyrirtæki eiga að fá stuðnings þegar virkilega þörf er á því.

Nú er það svo að staðan er farin að batna að mörgu leyti. Okkur er að takast að halda veirunni niðri

Það er sjálfsögð krafa okkar að fyrirtækin endurgreiði óþarfa stuðning. Sjálfviljugar endurgreiðslur þegar við sjáum að staðan er að lagast hjá fyrirtækjum væri lang eðlilegasta leiðin. Stuðningsgreiðslur verði endurgreiddar í sameiginlega sjóði.

Ég legg jafnframt til að lög verði sett um að á næstu árum muni ríkið setja á sérstakan skatt á fyrirtæki sem hafa nýtt sér þetta úrræði ÁN þess að þau hafi þurft stuðning. Þessi skattur verði settur á arðgreiðslur út úr fyrirtækjunum og gæti til dæmis verið virkur næstu fimm árin.

Auk þess þarf auðvitað að stöðva allan stuðning við fyrirtæki þar sem eigendur tengjast á einhvern hátt aflandsfélögum eða skattaskjólum. Það er hreint út sagt með ólíkindum að það sjálfsagða skilyrði hafi ekki verið sett í lögin hér á landi líkt og víða var gert.

Það er með öllu ólíðandi að mikilvægur stuðningur sé misnotaður með þeim hætti sem við sjáum. Við verðum að reisa réttlátt samfélag þar sem áherslan verður lögð á réttindi fólksins. Fjármagnseigendur verða að leggja til samfélagsins í miklu meiri mæli en hingað til og því þarf að taka upp nýtt fjármagnstekjuskattskerfi þar sem arðgreiðslur úr rekstri fyrirtækja verða skattlagðar með ígildi skattprósentu efsta skattþreps í tekjuskattskerfisins.

Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambandsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×