Innlent

Sextán ára fangelsi fyrir manndráp við Hringbraut

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag Þórarinn Gíslason í sextán ára fangelsi fyrir að hafa ráðið Borgþóri Gústafssyni bana í íbúð við Hringbraut í Reykjavík í október í fyrra. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem Þórarinn hefur sætt frá 7. október.

Þórarni var gefið að sök að hafa 7. október í fyrra veitt nágranna sínum, Borgþóri, þrjú högg í höfuðið með duftslökkvitæki. Við það brotnaði höfuðkúpa fórnarlambsins á þremur stöðum þannig að það blæddi inn á hana og Borgþór lést í kjölfarið.

Þórarinn neitaði sök í málinu og sagði að ekkert ósætti hefði verið á milli sín og fórnarlambsins en þeir hefðu verið að drekka saman kvöldið og morguninn áður en Borgþór lést. Hann sagðist svo hafa komið að Borgþóri látnum síðar um daginn og tilkynnt lögreglu um það.

Við aðalmeðferð málsins kom fram að blóðug föt hefðu fundist inni hjá hinum ákærða en hann skýrði það á þá leið að hann hlyti að hafa þurrkað sér í þau eftir að hafa fundið nágranna sinn alblóðugan. Þá fundust áverkar á höndum hins ákærða sem benda til aðildar hans að málinu.

Rannsóknarlögreglumaður sem bar vitni sagði að öryggismyndavélar sýndu að svo virtist sem mennirnir hefðu verið að rífast áður en Borgþór hefði fundist látinn.

Dómurinn komst að því út frá framburði Þórarins að hann hefði verið að langmestu leyti í óminnisástandi (blackout) og væri því ekki byggjandi á reikulum framburði hans. Út frá framburði vitna og sönnunargögnum komst dómurinn að því að Þórarinnn væri sekur og ætti sér engar málsbætur.

Auk þess var hann dæmdur til að greiða systkinum Borgþórs hálfa milljón króna í skaðaætur.

Enginn á að þurfa að deyja á þennan hátt

Lögmaður Þórarins sagði eftir að dómurinn var kveðinn upp að tekin yrði ákvörðun síðar um það hvort málinu yrði áfrýjað. Til þess hefur Þórarinn fjórar vikur.

Ólafía Gústafsdóttir, systir Borgþórs, sagði við blaðamann Vísis að hún teldi dóminn ásættanlegan en „það á enginn að þurfa að deyja á þennan hátt, hvorki hann né aðrir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×