Skoðun

Úrelt stofnanaskipulag einkennir íslenska háskóla

Signý Óskarsdóttir skrifar
Vandinn í íslensku háskólasamfélagi er ekki fjöldi starfsstöðva á háskólastigi, vandamálið er skortur á rými fyrir virka og skapandi hugsun innan háskólastofnana og lítil samvinna milli þeirra og jafnvel á milli deilda innan sömu stofnunar. Það er úrelt stofnanaskipulag sem einkennir íslenska háskóla. Skipulagið viðheldur deildarmúrum sem veita skjól þar sem hægt er að ala á sérhagsmunum sem hefta samskipti við þá sem standa utan þeirra. Múrarnir virðast vera á milli háskólastofnana ekki síður en innan þeirra.

Stjórnvöld hafa nú þegar skipt íslenska háskólasamfélaginu í tvennt með því að stofna net opinberra háskóla og sett fjármagn í sjóð þeim til handa. Í þennan sjóð má sækja styrki til þess að þróa kennslu og efla gæðamál innan opinberu skólanna. Sjálfstæðu skólarnir geta aðeins sótt um í samstarfi við opinbera skóla. Hvatinn til samstarfs við skóla utan opinbera netsins er því enginn því skilaboð stjórnvalda eru að opinberir skólar skuli þróa samstarf sín á milli.

Allir íslenski háskólar þurfa að fylgja sömu lögum og reglum um gæðaeftirlit. Allir háskólarnir þurfa að skilgreina námsbrautir sínar út frá sömu viðmiðum sem gefin eru út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Margir háskólakennarar kenna í fleiri en einum háskóla, innan opinbera netsins og í sjálfstæðu skólunum.

Háðir samfélaginu

Háskólarnir eru háðir samfélaginu og stefnu yfirvalda á sama tíma og yfirvöld og samfélagið leggur miklar skyldur á háskólana til þess að efla samfélagið. En niðurskurður á fjárframlögum til háskóla heggur einmitt í und háskólasamfélagsins að því leyti að með niðurskurðinum er verið að draga úr getu þess til að starfa af fullum krafti að uppbyggingu samfélagsins, hvort sem það er í gegnum rannsóknir, kennslu eða samstarfsverkefni.

Íslenska háskólasamfélagið er mjög ungt á alþjóðlegan mælikvarða og er í þeim sporum að þurfa að fóta sig og vera samkeppnishæft á alþjóðlegum vettvangi. Íslenska háskólasamfélagið samanstendur af sjö háskólum en auk þeirra má finna háskólasetur og háskólafélög ásamt rannsóknasetrum víða um land. Samstarfsnet símenntunarmiðstöðva og tengsl þeirra við háskólana og rannsóknasetur liggja víða.

Íslenska háskólasamfélagið getur verið samkeppnishæft og gildur þátttakandi á alþjóðlegum vettvangi með því að tefla fram sterkum háskólum í sameiginlegu þekkingarneti sem er knúið áfram af virkri og skapandi hugsun og teygir sig milli fræðasviða og stofnana. Þekkingarnet sem nýtir rannsóknir í landinu og þann mannauð sem háskólar búa yfir í dag til þess að móta háskólanám og námsaðstöðu á heimsmælikvarða. En til þess þarf að móta raunverulega stefnu íslenska háskólasamfélaginu til handa og stjórnvöld verða að skuldbinda sig til þátttöku í þeirri nýju framtíðarsýn. Engar haldbærar upplýsingar virðast vera til sem benda til að sameining stofnana eða samvinna milli þeirra til að spara rekstrarkostnað muni skila sér í meiri gæðum náms og rannsókna, samt er það mantran sem kyrjuð er í öllum hornum.

Það þarf að auka flæði milli fræðasviða og opna háskólasamfélagið á þann hátt að hugmyndir úr grasrót og samfélagi eigi greiða leið inn í skólana. Þannig væri hægt að gera íslenska háskóla að virkum og skapandi þekkingarsamfélögum sem starfa í þekkingarneti sem þjónar þörfum samfélags og einstaklinga til framtíðar.

Framsýni og kjarkur ætti að einkenna komandi tíma í menntamálum landsins og þar geta virkir og vel tengdir háskólar stuðlað að sköpun og miðlun þekkingar og hæfni sem nýtist við framtíðaráskoranir. Metnaðarleysi stjórnvalda og kerfislægar hindranir eiga því ekki að stjórna því hvernig framtíð íslenska háskólasamfélagsins mótast.




Skoðun

Sjá meira


×