Innlent

Sjálfstæðismenn útskýri viðsnúning sinn

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, vill að sjálfstæðismenn í borgarstjórn útskýri viðsnúning sinn í málefnum Reykjavik Energy Invest og segir ekki hægt að bjóða viðsemjendum fyrirtækisins og almenningi upp á algjöra hentistefnu í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur.

Eins og fram hefur komið í fréttum náðist í gær sátt um málefni REI á aukastjórnarfundi Orkuveitu Reykjavíkur og á að finna útrás fyrirtækisins farveg í REI. Óskar fagnar þessari niðurstöðu Orkuveitunnar en minnir jafnframt á að meirihluti framsóknarmanna og sjálfstæðsmanna féll í október síðastliðnum vegna þess að samrýmdist ekki grundvallarhugmyndaræði sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að blanda saman opinberum rekstri og áhættuútrásarverkefnum.

Segir Óskar enn fremur að betra hefði verið ef sjálfstæðismenn hefðu séð ljósið í þessu máli á þeim tíma sem framsóknarmenn reyndu að koma vitinu fyrir þá. „Allt það klúður sem almenningur hefur þurft að horfa uppá í borgarstjórn Reykjavíkur á undanförnum mánuðum á rætur að rekja til þess að Sjálfstæðisflokkurinn krafðist þess að REI yrði selt einkaðilum. Hvar eru talsmenn þeirra sjónarmiða núna?" spyr Óskar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×