Innlent

Menn á hálum ís í grænmetismálinu

Breki Logason skrifar
Jóhannes Gunnarsson formaður neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson formaður neytendasamtakanna.

„Við hljótum að gagnrýna það þegar menn skera niður innflutt grænmeti og pakka því sem innlendu. Það er okkar sjónarmið að þarna séu menn á afar hálum ís og séu að villa um fyrir neytendum," segir Jóhannes Gunnarsson formaður neytendasamtakanna.

Árni Johnsen þingmaður sjálfstæðisflokksins vakti athygli á því á Alþingi í gær að innflutt grænmeti væri í mörgum tilfellum skolað upp úr íslensku vatni, skorið niður og selt sem íslenskt.

Jóhannes segir að neytendasamtökin hafi skoðað þetta mál fyrir nokkrum árum eftir ábendingu. Niðurstaðan þá hafi verið sú að virðisaukin hér á landi væri það mikill að þetta mætti gera.

„En ég tek undir þá gagnrýni sem kom fram á Alþingi í gær og það ber að hafa það í huga að neytendur meta innlendar landbúnaðarvörur almennt betur en innfluttar. Það skiptir því máli að það sé ekkert vafamál hvert upprunaland vörunnar er," segir Jóhannes sem áttar sig ekki á því hvort það sé matvælaeftirlitið eða neytendastofa sem eigi að grípa inn í.

„Ég trúi nú samt ekki öðru en að yfirvöld feli matvæla- eða neytendastofu að taka á þessu máli í ljósi þessara umræðna á alþingi, sem ég fagna mjög."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×