Fótbolti

Haíti upp fyrir Ísland á FIFA-listanum - Ísland áfram í 110. sæti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Íslenska karlalandsliðið situr áfram í 110. sæti á Styrkleikalista FIFA en nýr listi var gefinn út í morgun. Heims- og Evrópumeistarar Spánverja sitja sem fyrr í efsta sæti listans.

Meðal þjóða sem fór upp fyrir Ísland á listanum að þessu sinni er Haíti sem komst upp í 101. sætið þrátt fyrir miklar hörmungar heima fyrir. Haíti-menn hækkuðu sig um heil 27 sæti á listanum.

Íslenska landsliðið hafði fallið niður um 31 sæti (frá 79. niður í 110. sæti) á undanförnum tveimur listum en stendur nú í stað. Ísland er þó einu sæti neðar þegar aðeins eru skoðaðar þjóðir innan Evrópu.

Ísland er nefnilega einu sæti ofar en Wales en velska landsliðið féll niður um sjö sæti og niður í 111. sæti. Ísland er í 45. sæti af 53 þjóðum innan UEFA.

Ísrael, mótherjar Íslands í vináttulandsleik í Tel Aviv í kvöld, hækkuðu sig um eitt sæti og sitja í 56. sætinu eða 54 sætum ofar en íslenska landsliðið.

Heims- og Evrópumeistarar Spánverjar eru áfram í efsta sæti listans og næstu þjóðir eru Holland og Brasilía. Það var engin breyting meðal efstu níu þjóðanna og eru Englendingar því áfram í 6. sæti einu á eftir Argentínu og einu á undan Úrúgvæ.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×