Skoðun

Prestkosningar í Seljasókn

Í dag ganga sóknarbörn í Seljasókn að kjörborðinu. Í fyrsta sinn í tæp þrjátíu ár fara fram almennar prestkosningar í Reykjavík.

Aðdragandinn að þessum kosningum er sá að á vormánuðum fór um það bil helmingur sóknarbarna í Seljasókn fram á að þegar valinn yrði nýr sóknarprestur yrði það gert með þessum hætti. Nú hefur því skapast stórkostlegt tækifæri, þar sem nýr sóknarprestur verður kjörinn af söfnuðinum.

Ég hef boðið mig fram til þeirrar þjónustu og starfa. Ég hef starfað við Seljakirkju undanfarinn áratug, fyrst sem starfsmaður í æskulýðsstarfi en var svo vígður sem prestur til kirkjunnar árið 2007 og því mun þessi kirkja ávallt skipa sérstakan sess í huga mér.

Á þessum tíma hef ég fengið að njóta þess að starfa með þessum góða söfnuði og ganga með fólki á stærstu gleðistundum lífsins sem og í gegnum dimma dali þegar sorgir og þrengingar steðja að. Jafnframt hef ég lagt mig fram, ásamt frábæru samstarfsfólki í kirkjunni, um að tryggja það að safnaðarstarfið í Seljakirkju sé lifandi og kröftugt og þar finni fólkið sig velkomið. Við eigum að leitast við að bjóða upp á ólíka starfsþætti fyrir alla aldurshópa sem sameinast í kirkjunni undir merkjum Jesú Krists.

Í þessum kosningum legg ég mitt starf undir og þess vegna bið ég um stuðning að fá að leiða starfið í Seljakirkju næstu árin. Í þessum kosningum sem öðrum skiptir hvert atkvæði máli og þess vegna vona ég að söfnuðurinn nýti þetta einstaka tækifæri, mæti á kjörstað og láti sig þetta mikilvæga málefni varða. Guð blessi ykkur öll.






Skoðun

Sjá meira


×