Minjavernd ber ábyrgð á framkvæmdinni og stýrir henni og hefur fengið fjölda verktaka til vinnu á Fáskrúðsfirði. Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segir það hafa verið nokkra bjartstýni að helmingur kostnaðarins yrði greiddur af frönskum stjórnvöldum. „Það er nú aðeins svo að góðviljaður útgerðarmaður frá Frakklandi veitti okkur eitt þúsund evrur til uppbyggingarinnar, það er allt og sumt. Hitt höfum við þurft að greiða sjálf. Það hefur verið svolítið bjartsýnt á sínum tíma að telja svo mikið fé koma erlendis frá,“ segir Þorsteinn.


Minjavernd er í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar sem eiga 38.7 prósent hlut hver, og sjálfseignarstofnunarinnar Minja. Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir eðlilegt að málefni Minjaverndar séu rædd oftar á vettvangi borgarinnar. „Félaginu er ekki ætlað að vera á framfæri hins opinbera, hvorki ríki né borg þó þau eigi hlut í því, og á nýjustu ársreikningum þá má sjá að eiginfjárstaða félagsins er sterk. Þar sem félagið byggir á svo gömlum grunni er eflaust að finna ástæðu þess að félagið er í eigu hins opinbera en það væri eðlilegt að skoða að það yrði gert alveg sjálfstætt. Ef það er vilji til að borgin eigi í þessu félagi væri þó eðlilegt að það væri rætt oftar á vettvangi borgarinnar hvað þar fer fram,“ segir Hildur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. apríl