Skoðun

Elsku bíll, viltu stoppa fyrir mig?

Þessa litlu setningu mælti tæplega þriggja ára dóttir mín á heimleið úr leikskólanum í gærdag og bætti við: „Mamma, bílarnir eru svo margir og þeir nenna ekki að stoppa fyrir okkur.“

Við fjölskyldan búum í Smárahverfinu í Kópavogi en gatan Dalsmári liggur í gegnum hverfið. Við þessa tilteknu götu er meðal annars stór 150 barna leikskóli – Leikskólinn Lækur (sem áður var tveir leikskólar og einn gæsluvöllur) – og grunnskólinn Smáraskóli. Gatan er merkt sem „30 gata“ en það heyrir til undantekninga að bílar keyri á löglegum hraða þar um.

Nú styttist óðum í skólabyrjun og börnin í neðri hluta hverfisins þurfa að fara yfir götuna til að komast í skólann, en undirgöng liggja að honum frá efri hluta þess. Gatan fyllist bráðum af nýjum vegfarendum, sem til þessa hafa tilheyrt tiltölulega vernduðu umhverfi leikskólanna og fá nú að spreyta sig á nýjum slóðum. Slóðum sem okkur öllum ber skylda að kenna þeim á og vernda.

Okkur finnst gott að búa í Kópavogsdalnum í nálægð við skemmtileg útivistarsvæði fyrir fjölskylduna. Lækurinn og andapollurinn eru rétt hjá okkur, sem og göngu- og hjólaleiðir sem liggja til allra átta. Þegar við viljum njóta þess sem dalurinn hefur upp á að bjóða eða þegar við förum fótgangandi með börnin í eða úr leikskólanum komumst við ekki hjá því að ganga yfir þessa miklu umferðargötu sem Dalsmárinn í raun er.

Við hjónin leggjum mikið upp úr umferðaröryggi og höfum kennt börnunum okkar tveimur umferðarreglurnar með góðri hjálp frá Krökkunum í Kátugötu, en þar er um að ræða bækur gefnar út af Samgöngustofu sem öll börn á leikskólaaldri fá sendar.

Börnin eru fimm og þriggja ára og kunna umferðarreglurnar betur en margir fullorðnir vegfarendur – betur en mjög margir reyndar. Það vantar ekki merkingar við götuna, svo ekki er við Kópavogsbæ að sakast. Það eru þrengingar við báða enda götunnar þar sem hámarkshraði er tilgreindur, það eru nokkrar hraðahindranir og gangbrautir, sem eru merktar með viðeigandi umferðarskiltum.

Ég hef haft samband við lögregluna og umferðarhraðinn hefur verið mældur þarna oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Allt kemur fyrir ekki og þrátt fyrir hraðasektir, fjölda gangandi vegfarenda og börn að leik við götuna halda bílstjórar áfram að keyra allt, allt of hratt í gegnum hverfið.

Kannski eru margir að verða of seinir í ræktina, á tennis- eða íþróttaæfingu, en öll umferð í Sporthúsið, Tennishöllina í Kópavogi og Knattspyrnuhöllina Fífuna fer um Dalsmárann. Foreldrar eru jafnvel orðnir of seinir að sækja börnin í leikskólann, skólann eða á íþróttaæfingar. Viljum við ekki frekar mæta 1-2 mínútum of seint en að ógna öryggi gangandi vegfarenda og barnanna okkar? Þótt einhverjir séu að verða of seinir til að sinna erindum sínum held ég hins vegar að dóttir mín hafi naglann á höfuðið, og ég endurtek að hún er ekki orðin þriggja ára, fólk nennir einfaldlega ekki að stoppa við gangbrautir!

Það er einlæg ósk mín og barnanna minna að þú, kæri bílstjóri, hægir á þér á leið þinni um hverfið okkar og stoppir fyrir okkur við gangbrautirnar. Og ekki bara á þessum stað, heldur alls staðar!




Skoðun

Sjá meira


×