Erlent

Obama hvetur ungt fólk til að hafna bölsýni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Obama ræddi við ungt fólk í dag.
Obama ræddi við ungt fólk í dag. Vísir/Getty
Barack Obama Bandaríkjaforseti hvatti í dag ungt fólk til þess að hafna bölsýni á þróun mála í heiminum. Sagði hann að ungt fólk um allan heim þyrfti að eiga í samskiptum við fólk af mismunandi skoðunum ætluðu þau sér að breyta heiminum.

Í dag var síðasti dagur Bretlandsheimsóknar Bandaríkjaforseta og hélt hann fund með um fimm hundruð ungum leiðtogum í bresku samfélagi.

„Ég er hér til að segja ykkur að hafna þeirri hugmynd að til séu öfl og kraftar sem við höfum ekki stjórn á. Ég segi eins og John F. Kennedy, vandamál okkar eru af mannavöldum og við getum leyst þau,“ sagði Obama.

„Þið hafið aldrei haft jafn góð tæki til þess að hafa áhrif,“ sagði Obama á fundinum. „Hafnið bölsýni og gerið ykkur grein fyrir því að framfarir eru mögulegar en alls ekki sjálfsagðar. Framfarir krefjast baráttu, aga og trúar.“

Obama sagði þó einnig að ungt fólk í dag stæði frammi fyrir margvíslegum erfiðum áskorunum. „Ég ætla ekki að halda því fram að ykkar kynslóð lifi auðveldu lífi, nú á tímum stórbrotinna breytinga, allt frá 11. september, hryðjuverkanna í London og á þessari öld upplýsinga og Twitter með sínum stöðuga straum slæmra frétta.“

Sagði Obama að ein af þeim af þeim leiðum sem myndu vísa veginn í átt að framförum væri sú að eiga í samskiptum við fólk af ólíkum skoðunum. Hvatti hann unga fólkið til þess að sækjast eftir því að eiga í samræðum við fólk með mismunandi pólítiskar skoðanir það myndi víkka sjóndeilarhringinn.

Obama heldur Evrópureisu sinni áfram og heldur í dag til Þýskalands þar sem hann mun ræða meðal annars ræða við Angelu Merkel Þýskalandskanslara.

 


Tengdar fréttir

Kallar Obama hálf-kenískan hræsnara

Borgarstjóri Lundúna er ekki hrifinn af afskiptum Bandaríkjaforseta af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu Breta um hvort landið skuli yfirgefa Evrópusambandið. Forsetinn hvetur til sameiningar og segir Bretland sterkara innan sambandsins.

Obama hvetur Breta til að yfirgefa ekki ESB

Barack Obama Bandaríkjaforseti kom í opinbera heimsókn til Bretlands í morgun og var varla lentur þegar hann var búinn að hrista verulega upp í deilunni um það hvort Bretar eigi að vera áfram í ESB eður ei. Obama skrifaði grein í Daily Telegraph sem birtist í morgun þar sem hann fer yfir málefni líðandi stundar og samskipti Breta og Bandaríkjamanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×