Erlent

Bændur á dráttarvélum til Brussel

Dráttarvélar voru áberandi á vegum í Belgíu í morgun. Þær stefndu allar sem ein til Brussel. Bændur í Belgíu segjast ekki standa undir sívaxandi olíukostnaði og krefjast þess að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að lækka olíuverðið.

Dráttarvélar eru ekki heppilegustu farartækin á hraðbrautum í kringum Brussel og þess vegna skapaðist mikið umferðaöngþveiti á vegum. Um tvö hundruð dráttarvélar lögðu upp í ferðina til Brussel. Eigendur þeirra, bændur, krefjast þess að eitthvað verði gert í því að koma þeim til hjálpar vegna síhækkandi olíuverðs.

Lögreglan tók til sinna ráða og beindi umferðinni af hraðbrautunum og inn á fáfarnari vegi og þannig var komist hjá því að vegfarendur færu sér að voða á hraðbrautunum til Brussel. Bændur beina kröfum sínum til ráðamanna í Evrópusambandinu og telja að þeir geti tekið á málinu.

Ríkisstjórnir þeirra ríkja sem eru aðilar að ESB hafa ítrekað að það sé sambandsins að leita lausna á málinu, en ekki einstakra ríkja. Aðeins tvær vikur eru síðan að flutningabílstjórar létu til sín taka og mótmæltu háu olíuverði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×