Lewis Hamilton ökumaður Mercedes-Benz liðsins í Formúlu 1 hefur farið þess á leit við bílaframleiðandann að hætt verði að nota leður í framleiðslu bílanna.
„Ég er að reyna að ýta undir sjálfbærni í mínu liði. Ég er að reyna að komast meira að hjá Formúlu 1 og vera meðvitaðari um umhverfið,“ sagði sexfaldi heimsmeistarinn í samtali við malasíkst lífstílstímarit.
„Mercedes-Benz er ristastórt fyrirtæki. Ég á símafund með framkvæmdastjóranum seinna í dag til að ræða hvort við getum unnið að því að hætta allri notkun leðurs í framleiðslunni. Það er eitthvað sem ég vil gjarnan koma að,“ bætti Hamilton við.
Hamilton er duglegur að fjalla um veganisma og hefur ítrekað vakið athygli á umhverfismálum og réttindum dýra á samfélagsmiðlum.
Hann var einn af framleiðendum heimildamyndarinnar The Game Changers sem fjallar um mýtur um að prótein úr dýraafurðum sé nauðsynlegt til að ná árangri í íþróttum.

Vegan bílar
Hamilton er ekki sá eini sem sér fyrir sér framtíð með vegan bílum. Aukin eftirspurn neytenda fyrir vegan bifreiðum hefur leitt framleiðendur á þessa braut nú þegar. Tesla Model Y og Model 3 verða að fullu vegan á næsta ári.
Þá hefur Volvo eins og svo oft áður verið brautryðjandi í þessu og má beda á Polestar 2, nýjan rafbíl frá sænska framleiðandanum. Polestar 2 er 100% vegan.
Þá eru margir framleiðendur að þróa efni sem er áþekkt leðri í áferð og útlit en er vegan. Ford, Honda, Jaguar, Porsche og meira að segja bentley eru allt framleiðendur sem sjá þörf til slíkrar þróunar.