Viðskipti innlent

Borga tíu milljarða fyrir Icelandair hótelin

Eiður Þór Árnason skrifar
Vincent Tan er stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group. Hann á ráðandi hlut í félaginu og er eigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff.
Vincent Tan er stofnandi og stjórnarformaður Berjaya Group. Hann á ráðandi hlut í félaginu og er eigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff. Vísir/Getty

Gert er ráð fyrir því að gengið verði frá sölu Icelandair Group á Icelandair Hotels til dótturfélags malasíska félagsins Berjaya Land Berhad í lok febrúar árið 2020 en ekki árslok 2019 líkt og áður var stefnt að.

Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að þau skilyrði sem samið hafi verið um vegna sölunnar séu nú að mestu uppfyllt.

Heildargreiðslur til Icelandair Group vegna kaupanna eru 84 milljónir Bandaríkjadala eða sem nemur um 10,1 milljarði króna.

Þann 13. júlí sl. skrifaði stjórn Icelandair Group undir samning við dótturfélag Berjaya Land Berhad um kaup á 75% hlut í Icelandair Hotels og tengdum fasteignum. Eitt af skilyrðum kaupanna var endurfjármögnun hótelfélagsins, er fram kemur í tilkynningunni.

Stjórn Icelandair Hotels skrifaði í dag undir samning við Arion banka um 8 milljarða króna lán þess efnis. Berjaya hefur nú þegar greitt Icelandair Group 15 milljónir Bandaríkjadala eða um 1,8 milljarð króna sem nemur um það bil 30% af kaupverði félagsins.

Segir í tilkynningunni að 29 milljónir Bandaríkjadala eða um 3,4 milljarðar króna verði nú greiddir í kjölfar endurfjármögnunar.

Dagsetning lokagreiðslu, sem nemur 40 milljónum Bandaríkjadala, verður þann 28. febrúar 2020 en þessi tveggja mánaða seinkun er sögð koma til vegna gjaldeyrishafta í Malasíu.

Komi til þess að eftirstöðvarnar verði ekki greiddar er til staðar samkomulag um vanefndagreiðslu af hálfu kaupanda. Myndi hann þá þurfa að greiða 10 milljónir Bandaríkjadala eða um 1,2 milljarð króna  af því sem þegar hefur verið greitt. Getur Icelandair Group þá rift kaupunum.

Berjaya Land Berhad er skráð félag í Malasíu og starfar meðal annars í hótelrekstri, smásölu og fasteignaþróun. Stofnandi og stjórnarformaður móðurfélagsins Berjaya Group er malasíski auðkýfingurinn Vincent Tan.


Tengdar fréttir

Malasíski risinn gengur frá kaupunum á Geirsgötu 11

Dótturfélag malasísku fyrirtækjasamsteypunnar Berjaya Corporation, sem keypti í sumar 75 prósent hlutafjár í Icelandair Hotels, hefur gengið frá kaupum á fasteigninni að Geirsgötu 11 á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×