Golf

Guðmundur Ágúst og Valdís Þóra eru kylfingar ársins 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd/Golfsamband Íslands

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi hafa verið valin bestu kylfingar ársins 2019.

Þetta er í 22. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í þriðja sinn sem Valdís Þóra fær þessa viðurkenningu en í fyrsta sinn sem Guðmundur Ágúst fær þessa viðurkenningu.


Guðmundur Ágúst Kristjánsson er 27 ára, varð Íslandsmeistari í höggleik á árinu í fyrsta skipti. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni sem er næststerkasta atvinnumannamótaröð í Evrópu. Hann komst inn á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Guðmundur hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú efstur Íslendinga í 558. sæti.

Valdís Þóra Jónsdóttir er þrítug, er kylfingur ársins í þriðja sinn. Hún lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi og endaði tímabilið í 71. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Valdís náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún lenti í 5. sæti. Valdis var lengi vel í forystu í mótinu en hún lék á 63 höggum á fyrsta hring, sem var besta skor mótsins.

Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 mótum af 14 á Evrópumótaröðinni á árinu. Hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum og verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili.

Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.