Innlent

Jóhannes segist hafa beðið alla afsökunar á umtöluðu símtali

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jóhannes Stefánsson segist hafa verið örvinglaður og leitað í áfengi á þeim tíma sem hann hringdi í þáverandi eiginkonu sína.
Jóhannes Stefánsson segist hafa verið örvinglaður og leitað í áfengi á þeim tíma sem hann hringdi í þáverandi eiginkonu sína. Vísir/Vilhelm

Símtal Jóhannesar Stefánssonar, fyrrverandi starfsmanns Samherja í Namibíu, og fyrrverandi eiginkonu hans þar sem hann hótar henni og fleirum öllu illu er í birtingu á YouTube á nafnlausum aðgangi.

Samkvæmt heimildum Vísis hafði eiginkonan fyrrverandi ekki hugmynd um birtingu símtalsins sem hún tók þó vissulega upp fyrir nokkrum árum. Myndbandið er því birt gegn hennar vilja og Jóhannesar sömuleiðis.

Jóhannes segir í samtali við Stundina að hann hafi verið ölvaður og örvinglaður þegar hann hringdi símtalið. Eiginkonan segist hafa deilt myndbandinu með Jóni Óttari Ólafssyni, starfsmanni Samherja, árið 2017 og nokkrum til viðbótar.

Jóhannes segist hafa upplifað sig í mikilli lífshættu á þessu tímabili.

„Ég var örvinglaður og tókst á við aðstæðurnar með því að drekka áfengi. Ég sagði hluti sem ég hef ætíð séð eftir og hef gengist við því og beðið alla hlutaðeigandi aðila afsökunar,“ segir Jóhannes við Stundina.

Jóhannes steig fram í Kveik í nóvember og greindi frá mútugreiðslum og miklum aflandsviðskiptum Samherja í Namibíu og Angóla undanfarin ár. Jóhannes var framkvæmdastjóri dótturfélags Samherja í Namibíu til ársins 2016 þegar hann lauk störfum. Hann kom þúsundum skjala í hendur Wikileaks og segir meðvitaður að hans geti beðið afleiðingar vegna þátttöku í aðgerðum Samherja.

Hér fyrir neðan má sjá myndbandið af símtalinu en nöfn önnur en Jóhannesar hafa verið fjarlægð úr því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×