Körfubolti

Grunur um veðmálasvindl í leik ÍR og Tindastóls

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Úr leik hjá Tindastóli í vetur.
Úr leik hjá Tindastóli í vetur. vísir/daníel þór

Formaður KKÍ, Hannes S. Jónsson, staðfesti við íþróttadeild í morgun að sambandið sé með í skoðun leik ÍR og Tindastóls frá því í gær vegna gruns um veðmálasvindl.

Sterkur orðrómur fór á kreik í gærkvöldi um að maðkur væri í mysunni og heimildarmenn Vísis innan veðmálageirans halda því fram að óeðlilega mikið hefði verið veðjað á leikinn. Í kjölfarið hefðu stuðlar breyst mikið skömmu fyrir leik. Sömu heimildir herma að veðmálasíður hafi flaggað þessum leik sem grunsamlegum og hann sé í skoðun hjá einhverjum þeirra.

Grunurinn beinist að ákveðnum leikmönnum í liði Tindastóls en ekki að leikmönnum ÍR.

„Við fengum ábendingu um þetta mál strax í gærkvöldi. Þetta er í fyrsta sinn sem ég fæ svona sterka ábendingu og við munum því skoða málið,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. „Sönnunarbyrði í svona málum er mjög erfið en við erum að skoða hvaða skref við getum tekið næst.“

Hannes segir ömurlegt að svona mál komi upp á yfirborðið en segir það engin ný tíðindi.

„Við vitum af þessari vá og hættu. Við vitum af þessu vandamáli sem er ein alvarlegasti váin í íþróttaheiminum í dag. Þetta mál er mikið rætt á fundum sem ég sæki erlendis og menn hafa eðlilega áhyggjur af þessari þróun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×