Handbolti

Fjórir sigrar í fjórum leikjum hjá Þóri og norsku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilie Hegh Arntzen var markhæst í norska liðinu.
Emilie Hegh Arntzen var markhæst í norska liðinu. Getty/Baptiste Fernandez/
Það gengur vel hjá norska kvennalandsliðinu í handbolta undir stjórn Þóris Hergeirssonar en liðið er með fullt hús eftir fjóra fyrstu leikina á HM.

Noregur vann fjórða leikinn sinn í röð þegar liðið mætti Angóla í dag og tryggði sér um leið endanlega sæti í milliriðli á HM kvenna í handbolta í Japan. Noregur, Holland og Svíþjóð bættust í hóp þeirra þjóða sem eru komnar áfram.

Noregur vann sex marka sigur á Angóla, 30-24, eftir að hafa verið einu marki yfir í hálfleik, 13-12.

Angóla gerði góða hluti á móti norsku stelpunum í dag og það munaði aðeins einu marki á liðunum um miðjan seinni hálfleik. Norska liðið kláraði leikinn hins vegar með góðum endaspretti.

Emilie Hegh Arntzen var markhæst í norska liðinu með sex mörk en síðan komu sex leikmenn með þrjú mörk eða þær Heidi Loke, Stine Bredal Oftedal, Kari Brattset, Marit Rosberg Jacobsen, Sanna Solberg og Marta Tomac.

Það er ljóst að Þórir er með liðið sitt í góðu formi. Í síðustu þremur leikjum hafa norsku stelpurnar unnið fyrri hálfleikina með samtals 3 mörkum en seinni hálfleikina aftur á móti með 22 mörkum.

Hollensku stelpurnar hafa heldur betur komið sér í gírinn eftir tapið óvænta á móti Slóveníu í fyrsta leik. Hollenska liðið tryggði sér sæti í milliriðlinum með þriðja stórsigrinum í röð en nú vann liðið þrettán marka sigur á Serbíu.

Holland varð fyrsta liðið úr A-riðli til að tryggja sér sæti í milliriðli en eftir sigur Slóvena á Kúbu er ljóst að Serbía og Slóvenía spila hreinan úrslitaleik um sæti í milliriðli í lokaumferðinni.

Rússland hélt sigurgöngu sinni áfram með því að vinna tíu marka sigur á heimastúlkum í Japan, 33-23. Rússnesku stelpurnar hafa unnið fjóra fyrstu leiki sína á mótinu. Sænsku stelpurnar eru líka með fullt hús eftir sjö marka sigur á Argentínu, 30-23, en með honum tryggði sænska liðið sér endanlega sæti í milliriðli.

Japan á enn möguleika að að komast áfram og nægir jafntefli í lokaleiknum á móti Kína.

Úrslitin á HM kvenna í handbolta í dag:

A-riðill

Kúba - Slóvenía 26-39

Serbía - Holland 23-36

Noregur - Angóla 30-24

Stig liðanna: Noregur 8, Holland 6, Serbía 4, Slóvenía 4, Angóla 2, Kúba 0.

D-riðill

Austur Kongó - Kína 25-24

Japan - Rússland 23-33

Svíþjóð - Argentína 30-23

Stig liðanna: Rússland 8, Svíþjóð, Japan 4, Argentína 2, Austur Kongó 2, Kína 0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×