Umfjöllun: Haukar - KA 28-22 | Fíaskó á Ásvöllum

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Adam Haukur Baumruk, leikmaður Hauka.
Adam Haukur Baumruk, leikmaður Hauka. vísir/bára
Haukar gerðu það sem þurfti á Ásvöllum þegar þeir lögðu KA að velli með 6 mörkum, 28-22. KA byrjaði leikinn betur og leiddi lengst af í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var jöfn, 11-11. 

Heimamenn áttu erfitt uppdráttar í leiknum en gestirnir mættu ákveðnir til leiks og leiddu lengst af í fyrri hálfleik. Það dró til tíðinda eftir rúmar 20 mínútur þegar Vignir Svavarsson fékk beint rautt spjald. Vignir sló þá fast í bringuna á Daníel Erni Griffin sem missti andann og dómararnir, Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalssteinsson, mátu það svo að senda Vigni uppí stúku. Dómararnir settu strax línuna í leiknum, línu sem erfitt var fyrir leikmenn að fylgja. 

KA leiddi með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks, 9-11 en misstu það niður og staðan var jöfn í hálfleik, 11-11. 

Bæði lið reyndu að aðlagast línu dómara í síðari hálfleik en áttu erfitt með að fylgja því og því fór sem fór, brottvísanirnar héldu áfram og alls voru 15 brottvísanir í leiknum og eitt rautt spjald. Liðin voru því manni færri lungað af leiknum. 

Enn það voru heimamenn sem spiluðu betur í síðari hálfleik og leiddu með tveimur mörkum eftir 10 mínútna leik, 18-16. Eftir það kom slakur kafli gestanna sem skoruðu aðeins eitt mark á næstu 10 mínútum og voru fimm mörkum undir fyrir loka kaflann, 22-17. 

Eftir leikurinn var auðveldur fyrir toppliðið sem sigldi tveimur stigum heim, þeir leiddu þegar mest lét með átta mörkum, 27-19 en unnu að lokum sex marka sigur, 28-22. 

Af hverju unnu Haukar?  

Þeir eru orðnir ansi góðir í því að skila sigri þrátt  fyrir slaka leiki, þetta var alls ekki góður handbolti sem þeir sýndu í dag en þeir spiluðu þó heilt yfir betri bolta en KA, það skilaði þeim sigrinum. Einnig eru þeir betur í stakk búnir að spila undir erfiðum kringumstæðum eins og í dag, þeir náðu að halda haus betur en leikmenn KA

Hverjir stóðu upp úr?

Haukarnir fagna innkomu Orra Freys Þorkelssonar sem var markahæstur í þeirra liði í dag með sjö mörk úr sjö skotum. Hans fyrsti leikur á tímabilinu og hann lét til sín taka eftir að hafa byrjað á bekknum.

Daníel Örn Griffin var markahæstur í liði KA með 6 mörk en Jovan Kukobat var þeirra besti maður í dag með 12 varða bolta og hélt þeim inní leiknum.

Hvað gekk illa? 

Fyrst og fremst voru það dómararnir sem eyðilögðu þennan leik, þetta var afleit frammistaða hjá þeim sem hafði mikil áhrif á leikinn. Liðunum tókst illa að spila góðan handbolta og var ekki mikið um gæði í leiknum. 

Hvað er framundan? 

Síðasti leikur fyrir langþráð landsleikjahlé liðanna er um næstu helgi, bæði lið spila á sunnudaginn, Haukar mæta Stjörnunni í Garðabæ á meðan KA tekur á móti Fjölni. 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira