Handbolti

Fjölnir áfram eftir dramatík og auðvelt hjá ÍBV

Brynjar Loftsson og félagar eru komnir í átta liða úrslitin.
Brynjar Loftsson og félagar eru komnir í átta liða úrslitin. vísir/bára
Fjölnir er komið í átta liða úrslit Coca-Cola bikarsins eftir dramatískan sigur á grönnum sínum í Fram, 27-25, á heimavelli.

Fjölnismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og voru einu marki yfir í hálfleik, 16-15, en mikil dramatík var í síðari hálfleik og skiptust liðin á því að leiða.

Framarar náðu ekki að jafna metin í lokasókn sinni og í stað þess fóru Fjölnismenn upp og juku muninn í tvö mörk er um fimm sekúndur voru eftir.

Breki Dagsson gerði níu mörk fyrir Fjölni og þeir Goði Ingvar Sveinsson og Viktor Berg fjögur hvor.

Þorgrímur Smári Ólafsson skoraði tíu mörk fyrir Fram en næstur kom Matthías Daðason með fimm mörk. Andri Dagur gerði fjögur mörk.

ÍBV lenti í engum vandræðum með Grill 66-deildarlið Þrótt í Laugardalshöllinni í kvöld og eru þar af leiðandi einnig komnir í 8-liða úrslitin. Lokatölur urðu 33-18 eftir að ÍBV hafi verið 16-7 yfir í hálfleik.

Elliði Snær Viðarsson gerði átta mörk fyrir gestina, Kristján Örn Kristjánsson fimm og þeir Kári Kristján Kristjánsson og Friðrik Hólm Jónsson fjögur hvor.

Edigijus Mikalonis var markahæstur hjá Þrótturum með átta mörk en þeir Styrmir Sigurðarson, Aron Heiðar Guðmundsson og Aron Valur Jóhannsson gerðu tvö hvor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×