Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Þór Ak. 113-52 | Njarðvíkingar tóku Þórsara í bakaríið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Njarðvíkingar hafa unnið tvo leiki í röð.
Njarðvíkingar hafa unnið tvo leiki í röð. vísir/bára
Njarðvík kjöldró Þór Ak., 113-52, þegar liðin mættust í Ljónagryfjunni í 7. umferð Domino's deildar karla í kvöld. Afar neyðarlegt 61 stigs tap fyrir Þórsara sem skoruðu aðeins tvö stig í 4. leikhluta.Þetta var annar sigur Njarðvíkinga í röð. Þeir eru í 8. sæti deildarinnar með sex stig. Þórsarar eru áfram stigalausir á botninum. Þetta var sextánda tap Þórs í efstu deild í röð.Kristinn Pálsson kom Njarðvíkingum á bragðið með því að skora fyrstu níu stig leiksins. Hann var besti maður vallarins í fyrri hálfleik þar sem hann skoraði 17 stig.Kristinn og félagar hans voru sjóðheitir fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik. Njarðvík skoraði þá níu þriggja stiga körfur í aðeins tólf tilraunum. Í leikslok var þriggja stiga nýting Njarðvíkinga 62%.Eftir erfiða byrjun unnu Þórsarar sig inn í leikinn og jöfnuðu í 14-14. Þá tóku Njarðvíkingar aftur við sér og þeir voru sjö stigum yfir eftir 1. leikhluta, 25-18.Í 2. leikhluta skildu svo leiðir. Njarðvíkingar skoruðu að vild, alls 35 stig, og pressuvörn þeirra kom Þórsurum í mikil vandræði. Þeir töpuðu boltanum hvað eftir annað og Njarðvíkingar refsuðu eftir hraðar sóknir.Munurinn jókst og jókst og í hálfleik var hann 27 stig, 60-33. Jón Arnór Sverrisson skoraði lokakörfu fyrri hálfleiks með ævintýralegu þriggja stiga skoti.Seinni hálfleikurinn var aldrei spennandi. Njarðvíkingar slógu hvergi af og bættu við forskotið.Eftir þrjá leikhluta munaði 41 stigi á liðunum, 90-50, og á endanum vann Njarðvík 61 stigs, 113-52. Undir lokin var mesta spennan hvort Þór næði að skora í 4. leikhluta. Eina karfa þeirra í honum kom þegar rúm mínúta var til leiksloka.Af hverju vann Njarðvík?

Njarðvíkingar eru með miklu betra lið en nálguðust leikinn af fagmennsku, spiluðu af krafti og hreinlega jörðuðu gestina frá Akureyri. Heimamenn voru miklu harðari af sér og rústuðu frákastabaráttunni, 58-25.Heimamenn skoruðu þegar þá lysti til og þeir spiluðu líka góða vörn sem gestirnir áttu engin svör við. Lykilmenn Þórs voru hræðilegir og neðsta lið deildarinnar má ekki við því.Njarðvíkingar létu boltann ganga vel, voru óeigingjarnir og enduðu leikinn með 26 stoðsendingar. Þórsarar voru með fleiri tapaða bolta (13) en stoðsendingar (8) í leiknum sem segir hversu slakur sóknarleikur þeirra var.Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn byrjaði af miklum krafti og átti sinn besta leik í vetur. Hann skoraði 24 stig og var stigahæstur á vellinum.Jón Arnór átti flottan leik með níu stig og sjö stoðsendingar. Bandaríkjamennirnir Chaz Williams og Wayne Martin skiluðu samtals 41 stigi. Tíu leikmenn Njarðvíkur komust á blað í leiknum.Hvað gekk illa?

Þórsarar eru með slakasta lið deildarinnar en þeir hafa ekki áður fengið skell eins og í kvöld. Það gekk ekkert upp hjá þeim og þá var vinnuframlagið ekki nógu gott og miklu minna en hjá Njarðvíkingum.Hansel Atencia, stigahæsti leikmaður Þórs í vetur, átti afleitan leik og var með fleiri villur (5) en stig (2). Jamal Palmer var slakur og hjálpar Þórsliðinu ekki neitt.Hvað gerist næst?

Njarðvíkur bíður öllu erfiðari leikur á fimmtudaginn þegar liðið sækir Íslandsmeistara KR heim. Á miðvikudaginn fær Þór Stjörnuna í heimsókn.

Einar Árni: Ólíkt betri tilfinning að vinna en tapa

„Þór spilaði hörkufínan leik gegn Keflavík í síðustu umferð og gerði fullt af góðum hlutum. Við áttum flotta æfingaviku og mér fannst góður gangur í liðinu. Við ætluðum að nýta breiddina og styrkinn í liðinu og við spiluðum á fullu gasi allan tímann,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir stórsigurinn á Þór í kvöld.„Þegar leið á fór sjálfstraustið hjá þeim út í veður og vind og þeir skoruðu aðeins tvö stig í 4. leikhluta. Ég er virkilega ánægður með mitt lið. Það var mikil vinnusemi í því.“Þrátt fyrir að vera með gott forskot í hálfleik gáfu Njarðvíkingar ekkert eftir í seinni hálfleik og völtuðu hreinlega yfir Þórsara.„Þegar þú ert með 30 stiga forskot í hálfleik er svo auðvelt að láta þetta bara fljóta í seinni hálfleik. En við þurfum að vinna í okkar leik og verða betri í því sem við erum að gera,“ sagði Einar Árni.„Ég var hrikalega ánægður með hvernig strákarnir tækluðu seinni hálfleikinn. Þetta snýst ekkert um lokatölurnar. Við töluðum um það í hálfleik. Þetta snýst bara um að bæta sinn leik og vera góðir í því sem við ætlum að vera góðir í.“Eftir fjögur töp í röð hefur Njarðvík unnið þrjá leiki í röð í deild og bikar. Einar Árni kveðst ánægður með hvernig hans menn hafa svarað fyrir sig.„Það er ólíkt betri tilfinning sem fylgir því að vinna leiki en að tapa þeim. Það þarf að passa sig að fara ekki of hátt upp og of langt niður. Við fórum kannski óþarflega lágt niður,“ sagði þjálfarinn að endingu.

Lárus: Fannst við missa móðinn

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Ak., bar sig vel þrátt fyrir 61 stigs tap hans manna fyrir Njarðvík í kvöld.„Fljótlega þegar fór að líða á seinni hálfleikinn sá maður hvernig þetta myndi enda. Maður var búinn að jafna sig á að tapa. Þetta er öðruvísi en að tapa með einu stigi, þá þarftu kannski á áfallahjálp að halda,“ sagði Lárus við Vísi eftir leik.Þórsarar hafa tapað öllum leikjum sínum í vetur en aldrei eins illa og í kvöld.„Við hittum á Njarðvík í ágætis stuði. Eftir 1. leikhluta var þetta jafnt en þeir náðu áhlaupi í 2. leikhluta. Eftir það náðum við engu áhlaupi sem er mjög óvenjulegt. Yfirleitt nær maður einhvers konar áhlaupi,“ sagði Lárus.En fannst honum Þórsarar gefast upp í leiknum?„Mér fannst við missa móðinn. Ég veit ekki hvort ég eigi að kalla þetta uppgjöf. Ungu strákarnir sem komu inn á lögðu sig alla fram en þá voru þeir að spila á móti betri körfuboltamönnum. Lykilmenn okkar voru ekki nógu góðir í dag,“ sagði Lárus.Hans bíður það erfiða verkefni að reisa Þórsara við eftir þetta stórtap í kvöld.„Ég kom einu sinni hingað með Hamri og tapaði með 50 stigum. Við fengum nýjan Bandaríkjamann og unnum átta í röð eftir það,“ sagði Lárus að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.