Skoðun

Þoþfbsoemssoh

Svavar Guðmundsson skrifar
Ofangreind fyrirsögn er algjörlega óskiljanleg því hún segir manni ekki neitt. Þessi ákveðna fyrirsögn er engu að síður skammstöfun mín á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. (Þoþfbsoemssoh). Þetta er klárlega lengsta stofnanaheitið á íslensku og því er ætlað að þjóna hagsmunum blindra og sjónskertra.  

Heiti á viðkomandi stofnun þvælist jafn mikið fyrir blindum og lögblindum einstaklingum, eins og hugsast getur. Þessi grein  kæmist aldrei fyrir í blaðinu nema nafn stofnunarinnar sé stytt og skammstafað, en alls eru í nafninu 95 bókstafir.  

Ég velti oft fyrir mér hvort sá sem kom að þessari nafngift sé ekki örugglega með 7 háskólagráður og yfirburðagreindir á öllum öðrum sviðum og á góðri leið með að stofna Stofnana-nafnanefnd til að viðhalda þessum bjánaskap. Stofnun fyrir blinda ætti í besta falli að heita Óli eða Ása eða bara VonarSýn.  

Ástæðan fyrir þessum greinaskrifum mínum er að mér finnst svo margt óskiljanlegt í starfsemi þessarar ákveðnu stofnunar.

Hjarta mitt tekur stundum óþarflega mörg aukaslög þegar forstjóri  (Þoþfbsoemssoh) lýsir því yfir í viðtölum að stofnunin sé með eitt hæsta þjónustustigið á meðal ríkisstofnana. Nýlega rakst ég á viðtal við forstjórann og er það að hluta til kveikjan að þessum skrifum mínum.

Sem dæmi höfum við, nokkrir félagsmenn Blindrafélagsins, ítrekað bent bæði fyrrverandi og núverandi forstjóra (auk nokkurra annarra starfsmanna) á fyrstu grunnregluna í samskiptum við blinda/lögblinda.  

Þessi fyrsta grunnregla er sú að okkur sé heilsað að fyrra bragði og sagt til nafns af alsjáandi starfsmönnum stofnunarinnar og höfum við þegið þó nokkrar afsökunarbeiðnirnar, en ég vista mínar á bleiku skýi því mér þykir svo vænt um þær. Ég er alveg handviss um að þessi gleymska hinna alsjáandi sé að verða úr sögunni því þegar einn blindur kennir - þá læra tveir alsjáandi.

Ég skrifaði síðast grein um starfsemi (Þoþfbsoemssoh) í desember 2017 undir fyrirsögninni „Gleraugun í kassanum“ en í henni lýsti ég hræðilegri lífsreynslu minni í samskiptum við starfsfólk stofnunarinnar sem hafði afar slæm áhrif á sálarlíf mitt þá, en ég var einungis að óska eftir að fá að prófa gleraugun í kassanum sem lágu á borðinu hjá þeim í 7 mánuði. Það tókst loks eftir 6 mánuði að fá að setja þau á nefbroddinn minn – en það tókst með aðstoð Morgunblaðsins, þ.e.a.s. ég þurfti að reka erindi mitt í blaðinu þegar allar brýr höfðu brostið þrátt fyrir tárvotar bænir mínar að fá að prófa gleraugun. Síðan sótti ég um að fá  gleraugun til afnota en því var umsvifalaust hafnað og tók það aðeins 4 daga að hafna skriflegri umsókn minni, ég átti að fara kæruleiðina og þ.m.t. dómstólaleiðina næstu árin. Ég átti sem sagt að eyða lífsorku minni  í allskonar kæru- og dómsmál sem var niðurstaða þriggja blaðsíðna úrskurðar stofnunarinnar, sem auðveldlega hefði verið hægt að stytta niður í eina blaðsíðu  hefði fullt nafn stofnunarinnar ekki verið skrifað og endurtekið 15 sinnum í úrskurðinum. Stofnunin sjálf hefur ekki gert svo mikið sem eitt handtak sl. 2 ár í því að hjálpa ungu fólki með framtíðina framundan til að fá þessi eða svipuð gleraugu og ekki Blindrafélagið heldur.

Á þessum tíma, þ.e. í desember 2017 hét (Þoþfbsoemssoh) Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga (ÞOÞFBSODE) og þá voru einungis 71 stafir í nafninu. Nú eru þeir orðnir 95 talsins, nokkuð vel af sér vikið á tímum skaðmenntunar og samþættingu einfaldleikans.  

Sá sem er best til þess fallinn að fara með nafnið villulaust 5 sinnum í röð án þess að fá munnþurrk eða bara hreinlega gefast upp, er símsvarinn hjá (Þoþfbsoemssoh).   Komið hefur upp hugmynd innan Blindrasamfélagsins að lögreglan myndi  mæla ölvunarástand bílstjóra með því að láta þá endurtaka nafnið nokkrum sinnum til að meta ástand þeirra.

Sjálfur kallar forstjórinn (Þoþfbsoemssoh) ríkisstofnunina „Miðstöðina“ og ef maður slær því upp á já.is, þá kemur upp einhver pípulagnaþjónusta suður með sjó og eitthvað Guðspekifélag við Reykjavíkurtjörn.  

Eftir að ég varð lögblindur handskrifa ég bókstafi mjög stórt, svona svipað eins og leikskólakrakki. Ég reyndi einu sinni að skrifa 95 stafa heitið utan á A4 umslag til stofnunarinnar, gerði ég nokkrar tilraunir en tókst það ekki svo ég reip til þess ráðs að fá utanaðkomandi aðstoð. Já, það er vissulega erfitt fyrir alsjáandi að skilja svona fíngerða smámunasemi.

Oftar en ekki felur það í sér jákvæða merkingu þegar sagt er að einhver standi undir eigin nafni, en því miður get ég ekki sagt hið sama um starfsemi (Þoþfbsoemssoh), nóg er nú nafnið þjónustu- og þekkingarhlaðið.

Svo vitnað sé í orð núverandi forstjóra í grein sem hún skrifaði fyrir stuttu síðan  í Morgunblaðið.

Óhætt er að fullyrða að sjaldgæft er að ríkisstofnun sé með hugtakið þjónusta sem grunnheiti og er undirrituð mjög stolt af því að vinna hjá jafn framsækinni stofnun sem er með höfuðáherslu á að þjónusta þann hóp sem hún vinnur fyrir.“

Framangreind fullyrðing er einhverskonar opinbert orðasalat sem mér er ekki tamt að skilja, minnir mig helst á blessunarríkt, óljóst sjálfshól.

Ég er líka vissulega þakklátur fyrir að vera uppi nú á tímum tækninnar sem til er í dag sem hjálpar blindum og sjónskertum til að einfalda sitt daglega líf, en oft hef ég þurft að ganga ansi óþarfalega lengi eftir þjónustunni, ekki síður en margir aðrir. Ég leita því oft nýrrar þekkingar í blindratækni erlendis, sbr. gleraugun í kassanum o.fl., því að sögn starfsmanna (Þþþþþþþþ) mega þeir ekki benda á framleiðendur og tækni þeirra í ljósi þess að (Þþþþþþþ) er ríkisstofnun.  

Ef það þarf að brjóta upp hversdagsleikann í starfsemi stofnunarinnar svo auka megi og efla skilning og þjónustu, þá þarf að sækja meiri fjárveitingu á fjárlög, eins og mér og félaga mínum var tjáð á fundi í vor.   

Á fundinum var okkur einnig tjáð að starfsmenn Þþþþþþþþ væru mikið í Evrópuverkefnum, en  að fundi loknum vorum við félagarnir litlu nær um hverju það hefði skilað til Blindrasamfélagsins á Íslandi.  

Á fyrrgreindum fundi benti framsækinn blindur félagi minn þeim á að ekki hefur komið ein einasta frétt frá Þþþþþþþ um nýjungar í blindratækni í þrjú og hálft ár, þrátt fyrir tíðar utanferðir sumra starfsmanna undanfarin ár sem okkur var kunngert um. Lofuðu þau í lok fundar að skoða málið og fara í ferlagreiningar og úrbætur.

Nú sem fyrr furða ég mig oft á hversu illa hinum framsækna forstjóra (Þþþþþþþ) gengur að svara tölvupóstum sem gætu skipt sköpum fyrir skjólstæðinga Þþþþþþþþþ, eða bara svara þeim alls ekki.

Eins og ég sagði fyrr fylgist ég mikið með framþróun í blindratækni erlendis.  Fyrir rúmum tveimur mánuðum var mér kynnt í höfuðstöðvum bresku Blindrasamtakanna í London ný tegund af blindrastaf sem eykur sýnileika og þar með öryggi blindra og sjónskertra í umferðinni til muna.  Þetta er bráðsnjall stafur því hann er með ljósi í neðri hlutanum, sem lýsir upp stafinn og umhverfið. Bresku blindrasamtökin (RNIB) ásamt fleirum hafa tekið þennan staf í notkun ásamt öðrum nýjungum. Ég tengdi framleiðanda stafsins og forstjóra Þþþþþþþþ saman í tölvupósti á sama tíma, þ.e. fyrir tveimur mánuðum síðan, til að kanna  hvort ekki væri áhugi á að skoða málið og nýja stafinn og fá hann til Íslands til prufu. Samkvæmt nýjustu upplýsingum þá hefur forstjóri Þþþþþþ hvorki svarað tölvupóstunum frá framleiðanda stafsins né mér en stafurinn er nú kominn í notkun í tugum landa víða um heim og sjálfur keypti ég mér einn slíkan.

Forstjóri fyrirtækisins sem framleiðir stafinn áttaði sig ekki á áhuga- og svarleysinu frá Þþþþþþþþ, ég svaraði því til að þeim væri alveg fyrirmunað að skrá ný hjálpartæki á skrá líkt og raunin var með gleraugun í kassanum, heldur snúist allt um að kæra einhverjar niðurstöður svo stofnunin haldi fjárveitingum sínum. Miðað við reynslu mína er varla nærtækari skýringu að fá en að þetta gæti hugsanlega skert fjárveitingar til stofnunarinnar, þ.e. að bæta við einfaldari hjálpartækjum. 

Úr varð því að framleiðandinn bauð mér að taka verkefnið að mér hérlendis sem ég ákvað að gera, þar sem mér finnst það áhugavert og skipta sköpum í öryggi margra ólíkra gangandi vegfarenda. Þetta er fallegur ljósstafur sem hefur LED ljós í neðsta hluta stafsins sem lýsir upp hluta hans svo hann verður mun sýnilegri fyrir alla aðila sem vilja ganga örugglega úti í myrkrinu. Ég á bara eftir að finna ljósstafnum fallegt íslenskt nafn, því hann á það svo sannarlega skilið að fá fallegt nafn.

Köld eru blinds manns kjör - en aumari eru skilningslaus opinber svör eða engin. Ég notast við svokallaðan talgerfil til þess að geta skrifað því ég sé ekkert á tölvu. Þennan talgerfil og innsetningu hans fæ ég hjá (Þoþfbsoemssoh) og engum öðrum.

Í fyrravetur tók það Þþþþþþþ rúma tvo mánuði að reyna setja talgerfilinn upp í nýju Lenovotölvuna mína svo ég gæti hlustað á skrifaðar fréttir og skrifað sjálfur og ég veit um tvær aðrar manneskjur sem hafa beðið mun lengur en ég til þess eins að geta sent tölvupóst.  

Eftir ábendingu vinar var það utanaðkomandi „tölvunörd“ sem reddaði málunum á korteri og hafði hann nú enga þekkingu á talgerflum, enda starfar hann hjá mannúðarsamtökum.

Ímyndaðu þér að vera án tölvu í tvo mánuði í nútímasamfélagi og þú ert samt með fulla sjón. Í þessa tvo mánuði gat ég heldur ekkert unnið mér til gagns og tekna. Vegna þekkingarleysis hjá Þþþþþþþþþþþþþ. Það er annað hvort svona mikið áhugaleysi eða skortur á getu, kannski hvort tveggja, til að leysa hin einföldustu mál sem hið alsjáandi auga leitar eftir. Svona yfirborðskenndar stofnanir pirra bara og eru uppfullar af „sendumértölvupóst“ heilkenninu.  

Nú loks er kominn afbragðs flottur starfsmaður sem kann margt fyrir sér í tölvumálum blindra og sjónskertra og fyrir það ber að þakka, en æði oft hefði verið hægt að komast hjá óþarfa pirringi undanfarin ár með vilja og skilning á aðstæðum að vopni. 

En talandi um að vera pirraður, ég er ekki sá eini að vera ekki laus við hann. Ég kemst ekki yfir götu hjálparlaust í höfuðborginni, nema við gangbraut með hljóðmerki eða með blindrastafinn, svo hvert smáatriði er mikilvægt fyrir blinda og sjónskerta vegfarendur. Að reyna aðrar aðferðir er lífspursmál. Já, þetta er oft spurning upp á líf og dauða og ef ég væri ekki með mína pínu nýtanlegu ratsjón væri ég ekki að skrifa þessa grein svo mikið er fullvíst. Það hefur oft staðið mjög tæpt að komast yfir göturnar þrátt fyrir að rétturinn sé allur mín megin og ég er ekki að grínast.  

Ég hef í nokkur skipti átt samtal við forstöðumann Umferðardeildar lögreglunar á höfuðborgarsvæðinu og eitt af því sem hann hefur tjáð mér er að árleg aukning þeirra sem aka undir ávana- og fíkniefnum er um 70% á milli ára og ekki hjálpar það þegar fólk er með athyglina á símanum í stað framrúðunnar.

Ég hef oft furðað mig á því hversu fáir götuvitar í borginni hafa í sér hljóðmerki og þá sérstaklega við gangbrautir, en hljóðmerkin getur maður virkjað í litlum kassa, ef hann er á annað borð á staurnum. Á mörgum stauranna þar sem er hljóðmerkjabox „finnst“ er enginn hnappur til að ýta á sem mér finnst stórfurðulegt, þannig er ferðaöryggið takmarkandi fyrir þá sem þurfa að treysta á hljóðmerkjaboxin.

Miðað við aðrar stórborgir sem ég þekki til og hversu erfitt er að komast um sökum fárra hljóðmerkja í Reykjavík hafði ég samband við Umferðardeild Reykjavíkurborgar sl. vor. Þar var í forsvari greinagóð Guðbjörg yfirverkfræðingur samgöngumála. Útskýrði ég það sem að ofan greinir og áhyggjum mínum af of fáum hljóðmerkjum og á því að margir hljóðmerkjakassanna væri ekki hægt að ýta á því engann hnapp væri á þeim að finna og því mjög takmarkandi að komast um. Þá útskýrði hún fyrir mér að borgin hefði tekið í notkun nýja tegund hljóðmerkjaboxa vorið 2017, sem væru reyndar sniðnir að þörfum blindra og sjónskertra og auðvitað annarra líka. Þeir væru nú víða um borgina. Hnappurinn til að virkja hljóðmerkið er nú undir á boxinu sem gefur frá sér mismunandi tíðnihljóð og víbring sem er nýjung því maður heyrir ekki í hljóðmerkinu í roki. Þessi nýjung er því frábær, veitir aukna öryggistilfinningu fyrir blinda/lögblinda og sjónskerta ef þeir eru á gangi í vindi/roki.

Ég spurði hana því af hverju borgin hafi ekki komið þessu á framfæri og sérstaklega við þá sem koma að málefnum blindra og sjónskertra þar sem þetta er nú eitt okkar allra mesta öryggistæki í umferðinni, þ.e. hljóðmerkin við gangbrautir.

Hún svaraði mér um hæl og staðfesti það við mig einnig í tölvupóst að hún lét, svo notuð séu hennar orð ...„Við létum stofnunina með langa nafnið vita, get ómögulega farið með það, eitthvað Þjónustu bla, bla,bla um leið og við tókum hljóðmerkin í notkun 2017, en þau eru nú víða um borgina,“og taldi hún upp margar staðsetningar fyrir mig sem hún að auki sendi mér einnig í pósti.

„Manstu hvaða starfsmanni þú tilkynntir þetta?“  spurði ég hana. „Dokaðu við, ég ætla fletta því upp,“ og svo gaf hún mér nafnið á starfsmanninum hjá (Þoþfbsoemssoh). 

Ég kalla það ekkert annað en vítavert gáleysi að hafa í um tvö ár látið undir höfð leggjast að koma þessum mikilvægu upplýsingum til blindrasamfélagsins (blindra og sjónskertra) en þar á bæ kannaðist enginn við þessi nýju hljóðmerkjabox.  

Það er fjarri lagi að öllum sé gefið að setja sig í spor annarra og æði margir ná ansi stutt í að reyna setja sig í þau. Víst er að menntun gerir fólk ekki að manneskju.

Það myndi nú einhver ökumaðurinn brjálast ef rauð ljós væru þau einu sem blikkuðu á götuvitanum  þannig að hann kæmist aldrei yfir gatnamótin. Í því samhengi er ég að benda á hversu erfitt það er að komast yfir ef við höfum ekki hljóðmerki til að treysta á til að komast yfir götuna.

Ég sendi því póst á forstjóra (Þoþfbsoemssoh) og spurðist fyrir um hvers vegna væri ekki búið að koma á framfæri til blindraasamfélagsins þessum breytingum á nýju hljóðmerkjunum í heil tvö ár. 

Hér er svarið hennar:

„Komdu sæll og blessaður Svavar.



Vísað er í tölvupóst sem dagsettur er þann 16. apríl s.l. þar sem að þú óskaðir eftir skriflegu svari um það af hverju var ekki komið á framfæri breytingu á hljóðmerkjum hjá Reykjavíkurborg. Þjónustu- og Þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnaskerðingu hér kölluð Miðstöðin, veitir ráðgjöf til þeirra sem til hennar leita þegar kemur að aðgengismálum þar á meðal hjá Reykjavíkurborg. Miðstöðin á almennt ekki að venjast því að samskiptin við þá aðila séu mjög formlega þegar leitað er ráðgjafar í aðgengismálum.

Miðstöðin er að fara í gegnum heimasíðu embættisins svo og samfélagsmiðla og mun ábending þín nýtast í þeirri vinnu við að móta stefnu þegar kemur að því að koma upplýsingum á framfæri.

Með kveðju

Margrét María Forstjóri“

Hvers á þetta svar að gjalda? Klárlega er þetta svar algerlega taktlaust og  minnir einna helst á olíubrák því það er algerlega innihaldslaust, það flýtur bara ofan á, segir ekkert og svarar engu ... já, óðurinn til stjórnsýslunnar er napur eins og hún sjálf.

Stundum er best að setja haus undir væng eins og farfuglarnir, bíta bara í stélið á sér og fara með Faðir vorið oftar en maður gerir vanalega á degi hverjum. En fyrir þá sem vilja kynnast betur þessari framsæknu stofnun þá er hún staðsett á Blindgötu 17 hér í borg.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og margt fleira með samþættar gáfur frá báðum foreldrum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×