Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Stjarnan 76-78 | Stjörnumenn stóðust pressuna og lögðu Njarðvíkinga

Árni Jóhannsson skrifar
vísir/daníel
Njarðvíkingar og Stjörnumenn þurftu bæði nauðsynlega á sigri að halda í kvöld í lokaleik fimmtu umferðar Dominos deildar karla í Ljónagryfjunni í kvöld. Stjörnumenn náðu í stigin tvö en það stóð tæpt þó útlit hafi ekki verið fyrir að þetta yrði tæpt þegar flautað var til leiks í þriðja leikhluta.

Heimamenn byrjuðu betur fyrstu fimm mínúturnar kannski en eftir það þá tóku gestirnir völdin og spiluðu óaðfinnanlega nánast næstur 25 mínúturnar. Þeir létu heimamenn líta út fyrir að vera viðvaninga en þeir voru viljasterkari og náðu í aragrúa frákasta á báðum endum vallarins og nýttu varnarstoppin sín til að byggja upp myndarlegt forskot sem mest varð 22 stig og þegar þriðji leikhluti var búinn var undirritaður búinn að afskrifa heimamenn og sá fram á rólegan lokafjórðung enda staðan orðin 46-63. Annað kom á daginn.



Njarðvíkingar sýndu að það var líf í líkömum þeirra og nöguðu þeir niður forskotið með því að gjörsamlega loka á Stjörnuna og ná loksins pínu flæði í sóknarleik sinn. Stjörnumenn svöruðu áhlaupi þeirra og leit allt út fyrir að leik væri lokið þegar staðan var 70-76 og um 20 sekúndur eftir af leiknum en með því að ná í sóknarfrákasti eftir klikkað víti og skora var munurinn 3 stig þegar 10 sekúndur voru eftir. Heimamenn unnu boltann svo strax aftur og settir Maciek Baginksi niður þrist sem jafnaði metin og leihlé var tekið þegar 4 sekúndur voru eftir.



Eftir leikhléið fékk Nick Tomsick boltann og keyrði hann að körfunni, stoppaði og setti niður æði fagurt stökkskot frá vítalínunni rétt áður en flautan gall. Þannig fór um sjóferð þá og Stjörnumenn keyra Reykjanesbrautina heim með 2 stig í farteskinu.



Afhverju vann Stjarnan?

Þeir eru með leikmenn í sínum röðum sem ber nafnið Nick Tomsick og sá er með ísvatn í æðunum þegar allt er undir í leikjunum. Stjörnumenn hefðu með réttu átt að vera búnir að loka þessu en heimamenn rétt svo vöknuðu til lífsins í lokafjórðungnum til að bjarga andlitinu.

Bestu menn vallarins?

Mario Matusovic var eini Njarðvíkingurinn með lífsmarki lengst af en hann dró vagninn með 23 stig og 15 fráköst.

Fleiri menn voru að keyra Stjörnulestina en Þó að Ægir hafi ekki skorað mikið þá fór hann fyrir sínum mönnum en Jamal Akoh skoraði stig og tók 11 fráköst á meðan Nick Tomsick skoraði 22 stig og skoraði sigurkörfuna.



Tölfræði sem vakti athygli.

Stjörnumenn tóku 23 sóknarfráköst í leiknu og 17 þeirra voru tekin í fyrri hálfleik. Úr þessum fráköstum komu 22 seinni tækifærisstig og telur það í körfuboltaleikjum.

Hvað næst?

Njarðvíkingar sleikja sárin en þeir þurfa að vera snöggir að jafna sig því þeir ranka við sér 10. sæti með 2 stig og eiga leik við Val á Hlíðarenda í næstu viku. Stjörnumenn líta betur út eftir fimmtu umferð, eru með sex stig og í þriðja sæti. Þeir eiga leik við Grindavík í Röstinni í næstu viku.

Einar Árni: Ömurlegt að hugsa um að við töpuðum með tveimur stigum og við spiluðum ekki í fyrri hálfleikÞjálfari heimamanna var skiljanlega svekktur en gat tekið eitthvað jákvætt úr leiknum þar sem hans menn náðu jafna metin eftir að þeir voru komnir í vonlausa stöðu fyrir seinasta leikhlutann.

„Þetta var afhroð í fyrri hálfleik. Það að leyfa andstæðingnum að taka 17 sóknarfráköst í fyrri hálfleik og 11 í fyrsta leikhluta, komandi úr leik þar sem við vorum linir og daufir, eru óstjórnleg vonbrigði. Við erum að reyna að horfa á það jákvæða. Menn börðust og reyndu að vinna sig inn í þetta. Það byrjaði frekar seint en þetta var hrikalega svekkjandi að fá ekki þessar fimm mínútur í viðbót til að kljást um þetta“.

Einar var spurður að því hvort staða liðsins væri komin í hausinn á mönnum og var Einar sammála því að það gæti verið orðin staðan.

„Við skulum ekki fara í grafgötur með það en hvað það er nákvæmlega er ekki alveg ljóst. Við byrjum ágætlega og erum að skjóta vel en svo snýst þetta við þar sem þeir taka hvert sóknarfrákastið á fætur öðrum og það drepur niður þetta þor sem við höfðum og við förum inn í skel. Það gildir á báðum endum vallarins og vorum helvíti lengi að vinna okkur upp úr því. Það er ömurleg tilfinning að tapa körfuboltaleik og það er ömurleg tilfinning þegar menn hafa lagt þó þetta á sig og það er ömurlegt að hugsa um að við töpuðum með tveimur stigum og við spiluðum ekki í fyrri hálfleik. Það er eiginlega viðbjóðslegasta tilfinningin“.

Arnar: Ég skeit á bitann en leikmennirnir björguðu mé„Njarðvíkingarnir gerðu vel og settu stór skot og svo í endann þá gerist, eins og góður maður segir, „Good players beat bad coaching“ og það var það sem gerðist hjá okkur. Ég skeit á bitann en leikmennirnir björguðu mér“, sagði hinn orðheppni þjálfari Arnar Guðjónss. þegar hann var spurður hvað hafði gerst hjá hans mönnum í lok leiksins í kvöld.

Hann var inntur eftir því hvort þetta væru framfarir frá seinasta leik.

„76 stig er skárra en hundrað varnarlega en við erum langt frá því þar sem við viljum vera. Þetta var öðruvísi leikur og færri skot en á móti Keflavík. Það breytist ekkert þó við höfum unnið hér. Við þurfum að bæta okkur helling“.

En hvað gerðist í fjórða leikhluta?

„Við urðum ekki hræddir eða eitthvað þannig. Þegar maður er kominn með gott forskot þá vill maður fækka sóknum ég trúi því að þegar maður er yfir þá á maður að hægja á leiknum og fækka sóknunum. Þess vegna var ég nærrum því búinn að kyrkja Kyle þegar hann tók mjög illa ígrundað skot hérna í lokin“. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira