Umfjöllun: Afturelding - Haukar 23-24 | Haukar unnu toppslaginn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukar unnu eins marks sigur á Aftureldingu í kvöld.
Haukar unnu eins marks sigur á Aftureldingu í kvöld. vísir/bára
Leikur toppliðanna í Olís deildinni var hin besta skemmtun. Fyrri hálfleikur var orðabókaskilgreiningin á hugtakinu stál í stál en lítið sem ekkert skyldi liðin að í upphafi leiks.

Guðmundur Árni Ólafsson og Atli Már Báruson voru frábærir í upphafi leiks og drógu vagninn fyrir sín lið. Guðmundur var iðinn af vítalínunni sem og auðvitað úr horninu á meðan Atli Már skoraði með sínum hefðbundnu gegnumbrotum þar sem hann setur höfuðið undir sig og veður inn í varnarmúr mótherjans.

Liðin skiptust á að hafa eins marks forystu en um miðbik fyrri hálfleiks tóku gestirnir það að sér að leiða leikinn á meðan Afturelding jafnaði. Það virtist vera sem liðin færu jöfn inn í hálfleik eftir að Júlíus Þórir Stefánsson jafnaði metin í 13-13 með marki úr vinstra horninu, einkar þröngt færi sem hann smurði yfir Grétar Ara Guðjónsson í marki Hauka.

Atli Már var hins vegar ekki á því og skoraði í þann mund sem flautan gall, staðan 14-13 Haukum í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var í raun spegilmynd þess fyrri en bæði lið voru klaufar sóknarlega og nýttu illa góðar stöður, þar á meðal yfirtölu sóknarlega. 

Þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, og staðan 17-16 Aftureldingu í vil, virtist sem það ætlaði að sjóða allhressilega upp úr. Adam Haukur Bamruk fékk þá beint rautt spjald fyrir að slæma hendi í andlit Þorsteins Gauta Hjálmarssonar. Skömmu síðar fékk Ásgeir Örn Hallgrímsson tveggja mínútna brottvísun fyrir svipað brot og allt í einu voru dómarar leiksisn farnir að ræða við ritaraborðið og uppi var mikil ringulreið.

Það endaði með því að Haukar voru fimm inn á vellinum en heimamönnum tókst ekki að nýta yfirtöluna þó þeir hafi komist tveimur mörkum yfir. Þeim tókst þó ekki að komast þremur yfir og skömmu síðar höfðu Haukar jafnað leikinn, staðan þá 19-19 og 13 mínútur eftir. 

Síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi en líkt og í fyrri hálfleik héldust liðin í hendur nær allt til loka. Það var skömmu fyrir leikslok sem Vignir Svavarsson reif sig lausan á línunni og kom Haukum í 24-23. 

Heimamenn fengu tvö tækifæri til að jafna Grétar Ari varði frá Þorsteini Gauta og Guðmundi Árna undir lok leiks og sigurinn því Hauka í kvöld. Lokatölur 24-23 í þessum hörku handboltaleik að Varmá í Mosfellsbæ.

Haukar fara því á topp deildarinnar með 14 stig þegar átta umferðum er lokið en þeir eiga enn eftir að tapa leik. Afturelding situr í 2. sæti með 12 stig, hafandi tapað tveimur leikjum en bæði töpin voru með eins marks mun. 

Af hverju unnu Haukar?

Það er erfitt að segja. Þetta féll einfaldlega þeirra megin í dag en það var löngu ljóst að þessi leikur myndi vinnast með eins marks mun. Vignir og Grétar Ari sáu til þess að Haukar voru réttum megin í handbandainu þegar lokaflautið gall. 

Hverjir stóðu upp úr?

Guðmundur Árni var flottur í horninu hjá Aftureldingu en hann hvarf þó aðeins í síðari hálfleik. Þá má segja að vítaskotin sem hann klikkaði á hafi verið mikilvæg sem og síðasta skot leiksins. Hjá Haukum var Atli Már Báruson markahæstur með sjö mörk en hann dró vagninn í upphafi leiks. Þá kom Vignir Svavarsson sterkur inn á línuna undir lok leiks.

Svo er vert að nefna Grétar Ara, markvörð, en hann hafði ekki átt sinn besta leik þegar hann varði síðustu tvö skot heimamanna og tryggði gestunum sigur. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur og markaskorun. Bæði lið hentu boltanum frá sér í gríð og erg.

Hvað gerist næst?

Á sunnudaginn kemur fer Afturelding í Grafarvoginn og mætir þar nágrönnum sínum í Fjölni. Haukar mæta svo Selfyssingum á útivelli degi síðar í stórleik umferðarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira