Skoðun

Á­skorun til um­hverfis­ráð­herra: Kjöt er ó­þarfur milli­liður

Davíð Hörgdal Stefánsson skrifar
Kæri Guðmundur Ingi.

Áður en lengra er haldið langar mig að halda til haga nokkrum atriðum: 

– allt prótín kemur úr jurtaríkinu

– allar helstu alþjóðastofnanir mæla nú með því – af umhverfisástæðum – að þjóðir heims dragi verulega úr kjöt- og mjólkurneyslu

– margar stofnanir, t.d. ensku háskólarnir Goldsmiths og Cambridge og Coimbra-háskóli í Portúgal, eru byrjaðar að hlýða þessu kalli með því að taka kjöt alfarið af matseðlinum

– síðast þegar ég gáði – og ég hef gáð nokkuð oft – er ekki minnst orði á þennan málaflokk á vegum Stjórnarráðsins eða Vinstri grænna – ef ég hef ekki leitað nógu vel máttu endilega senda mér gögn sem leiðrétta þennan misskilning

Guðmundur Ingi, við erum rétt málkunnugir en ég gladdist óskaplega þegar Vinstri græn, minn gamli flokkur, gerðu þig að umhverfisráðherra utan þings fyrir tveimur árum. Ég tel mig vera ágætis mannþekkjara og tilfinning mín var sú að þú værir jarðbundinn og sannur hugsjónamaður, ekki síst á sviði umhverfismála. Að þú værir með skýra hugmyndafræði og værir ekki tilbúinn að gefa neinn afslátt þegar kæmi að verndun náttúrunnar. Þetta hefur þú sannað með ýmsu móti í embætti umhverfisráðherra. Eins mikið og ég er andsnúinn núverandi ríkisstjórn – vegna þeirra valda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur en ætti alls ekki að hafa – ert þú, í þínu embætti, að mörgu leyti ljósið í myrkrinu.

Samt er ég grautfúll. Og hissa. Og gott ef ég er ekki að verða hallur undir samsæriskenningar líka. Ástæðan er sú að þótt skaðleg og mengandi áhrif kjöt- og mjólkurframleiðslu séu loksins orðin allflestum ljós þá heyrist ekki múkk í íslenskum stjórnvöldum. Það er eins og málaflokkurinn sé hreinlega ekki til.

Og þá spyr ég mig: Getur verið að öflugur umhverfisráðherra, sem brennur fyrir allt sem tengist umhverfismálum, hafi ekki heyrt um veganisma? Að hann hafi ekki heyrt um allt þetta fólk – um allan heim – sem hættir alfarið að neyta dýraafurða, meðal annars til að draga úr kolefnisspori sínu? Og svarið er að sjálfsögðu: Nei, það getur ekki verið. Að sjálfsögðu vita allir ráðherrar núverandi ríkisstjórnar hver staðan er í umhverfismálum, hverjar eru orsakirnar og hvað er til ráða.

Þess vegna verð ég hallur undir samsæriskenningar. Ég fer að velta fyrir mér ástríkum tengslum landbúnaðargeirans við Framsóknararminn í Vinstri grænum. Hann er bæði stór og valdamikill. Hugurinn hvarflar að því hvernig sjálfsmynd okkar Íslendinga er sett saman – við erum bændur sem ræktum landið og við erum sjómenn sem sækjum gull í greipar Ægis. Ég byrja að spyrja mig hvort allt færi ekki á afturfæturna í landbúnaðargeiranum ef ríkisstjórnin ætlaði að hvetja þegna sína til að draga verulega úr kjöt- og mjólkurneyslu.

Og svarið er: Jú, það yrði allt vitlaust.

Þess vegna hef ég á þessu svolítinn skilning. Ég skil að málið er flókið. Kjósendur eru viðkvæmir. Þeir vilja halda sínu – og helst fá svolítið meira eftir næstu kosningar.

Þess vegna, því miður, draga stjórnmálamenn um allan heim lappirnar. Þeir taka ekki á vandanum, jafnvel þótt leiðirnar blasi við. Ástæðan er sú að þeir þurfa að taka óvinsælar ákvarðanir sem koma illa við marga – að minnsta kosti tímabundið.

Þess vegna er einhver dáðasta manneskja samtímans ung stúlka að nafni Greta Thunberg. Vegna þess að hún sér vanhæfni kerfisins og afskaplega hægan viðbragðstíma, sem ekkert útlit er fyrir að komi okkur til bjargar.

Hvað vil ég?

Í draumaheimi myndi ég vilja algert afnám kjöt- og mjólkurframleiðslu á Íslandi, helst fyrir hádegi á morgun. En til að breyta heiminum og minnka kolefnisspor þjóðarinnar allsvakalega þarf ekki slíkt drama. Hér eru tvær hugmyndir:

- Þú getur sett strax í gang hraðvirka áætlun um að leggja af dýralandbúnað hér á landi. ​Íslendingar eru þekktir út um allan heim fyrir að hugsa út fyrir kassann; það verður hægðarleikur að finna atvinnu fyrir bændur og annað starfsfólk í landbúnaði. Kannski gætum við borgað þeim fyrir að gróðursetja fleiri tré … í staðinn fyrir að mjólka kýr sem á endanum verða að smjörfjalli?

- Þú getur sett strax í gang reglugerð þar sem stofnunum ríkisins er gert að draga um 50% úr kjöt- og mjólkurneyslu​ í mötuneytum og við önnur tækifæri þar sem boðið er upp á mat. Þetta er sáraeinfalt að gera – án aukins tilkostnaðar. Ef þú efast skaltu skella í eina skoðanakönnun á meðal grænkera og spyrja hvort vegan matarkarfa sé dýrari en hin hefðbundna.

Framboðið er ekki lengur vandamál, það er allt fljótandi í sniðugum valkostum sem koma í stað kjöts og mjólkurafurða, það er alger lúxusstaða að vera vegan á Íslandi og úrvalið eykst með hverjum mánuðinum. Ég hef sjálfur verið vegan í tæp tvö ár. Og ég get með sanni sagt að það eina sem ég sakna er bræddur ostur. Já, það eina sem framleiðendum vegan-valkosta hefur ekki enn tekist að gera er að framleiða ost sem verður seigur og dásamlegur þegar hann bráðnar.

Það er lítil fórn fyrir mikilvægan málstað.



Hvað með ömmu og afa?

Kjöt og mjólk hélt lífi í forfeðrum okkar og formæðrum. Um þetta þarf ekkert að deila og hver einasti grænkeri er þakklátur fyrir þá staðreynd. En það er líka staðreynd að allt prótín verður til í náttúrunni. Þessi ævaforna aðferð – að gera milliliði úr dýrunum – er ekki lengur þörf. Hún er ekki einu sinni skilvirk, vegna þess að margfalt minna prótínmagn fæst úr kjöti en beint úr mörgum jurtategundum.

Ég hef ekki sagt orð um grimmdina sem er innbyggð í allan landbúnað. Það er efni í aðra grein. Og mun blóðugri, því miður.

Kæri Guðmundur Ingi. Hið opinbera sendir skilaboð með öllum sínum gjörðum. Með því að styðja við menningu og listir eru skilaboðin til dæmis: „Við sjáum gildi í því að tryggja að listamenn geti sinnt list sinni og að landsmenn fái notið hennar. Þess vegna styrkjum við menningarstarfsemi.“

En það er líka hægt að senda skilaboð með þögn og aðgerðaleysi. Á meðan ríkisstjórnin og íslensk stjórnvöld þegja um skaðlegar afleiðingar kjöt- og mjólkurframleiðslui á umhverfið og halda áfram að bjóða upp á dýraafurðir á sínum vegum … tja, þá munu breytingarnar verða litlar eða mjög hægar. Þá eru skilaboðin svona: „Við samþykkjum, styðjum við og niðurgreiðum kjöt- og mjólkurframleiðslu.“

Og það passar hreinlega ekki við þig, sem ötulan baráttumann fyrir umhverfið, og Vinstri græn, sem yfirlýstan umhverfisflokk.

Ég er að biðja þig um að taka forystuna. Ég er að biðja þig um að sýna í verki að íslenska ríkið trúi ótal vísindamönnum sem vilja að við drögum verulega úr kjöt- og mjólkurneyslu. Ég er að biðja þig um að vera fyrirmynd – því af hverju ættu Jón og Gunna að gera breytingar í sinni matarkörfu ef ríkið leggur áfram blessun sína yfir kjöt, mjólk, osta og egg?

Út úr nýafstöðnum landsfundi VG komu nokkrar tillögur, m.a. um umhverfismál. Þar segir: „Viðhorfsbreyting þarf að eiga sér stað á öllum sviðum samfélagsins. [...] Við þurfum sameiginlegt átak og aðgerðir af hálfu stjórnvalda og atvinnulífsins sem hvetja neytendur til umhverfisvænni lífsstíls.“

Samt ríkir áfram alger þögn um kjöt- og mjólkurframleiðslu. Hún er ekki á VG-kortinu. Ung Vinstri græn sýndu þó dug sinn með því að leggja fram tillögu um að fundir á vegum VG yrðu framvegis kjötlausir. Tillögunni var vísað til stjórnar – og að lokum voru ungliðarnir beðnir um að draga hana til baka.

Hvað finnst þér sjálfum um það?



Og hvað með Schwarzenegger?

Að lokum þetta: Ef þú þarft að hvíla þig eftir lestur þessarar löngu áskorunar mæli ég eindregið með ​Game Changers, glænýrri heimildamynd sem þú finnur á Netflix. Þar geturðu hlustað á Arnold Schwarzenegger lýsa því hvers vegna hann hætti að borða kjöt, séð viðtöl við massaða bakverði úr ameríska fótboltanum, langhlaupara og hjólreiðafólk. Þú getur séð hvernig grænkerinn Nate Diaz leggur kjötætuna Conor McGregor að velli og hvernig einn sterkasti maður heims setur magnað Guinnes-met í kraftlyftingum.

Kjötát er umkringt flóknu kerfi af mýtum sem viðhalda þeirri lygi að við mannfólkið þurfum kjöt til að lifa góðu lífi. Ein stærsta mýtan er sveitarómantíkin. Látum af henni, fyrir umhverfið. Hin mýtan er næringargildið. Og þá er gott að muna að allt prótín kemur úr jurtum.

Allt prótín kemur úr jurtum.

Kjöt er óþarfur og mengandi milliliður – sem núna stefnir framtíð okkar allra í hættu.

Á heimasíðu VG stendur stórum stöfum þessi fallega fullyrðing: „Fólk sem þorir. Hreyfing sem getur.“ Ég er að skora á þig að vera framvörður og fyrirmynd í þessum nauðsynlegu breytingum. Ég er að biðja þig um að þora og geta.

Þannig hljóðar mín áskorun.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×