Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 22-22 | Stig á lið í Garðabænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórhildur var markahæst á vellinum með sjö mörk.
Þórhildur var markahæst á vellinum með sjö mörk. vísir/bára
Stjarnan og Haukar gerðu jafntefli, 22-22, í miklum spennuleik í Mýrinni í Garðabænum í Olís-deild kvenna í kvöld.Rakel Dögg Bragadóttir skoraði jöfnunarmark Stjörnunnar þegar rúm mínúta var eftir. Bæði lið fengu tækifæri til að vinna leikinn undir lokin en sóknir þeirra fóru forgörðum.Stjarnan er áfram í 3. sæti deildarinnar, núna með ellefu stig. Garðbæingar eru án sigurs í síðustu fimm leikjum sínum í deild og bikar. Haukar eru hins vegar í 6. sæti deildarinnar með fimm stig.Haukar byrjuðu leikinn mun betur og skoruðu fyrstu þrjú mörkin. Tinna Húnbjörg Einarsdóttir var í miklu stuði í markinu og það tók Stjörnuna sjö mínútur að koam boltanum framhjá henni.Hanna G. Stefánsdóttir skoraði þá eftir hraðaupphlaup. Heimakonur skoruðu sex mörk eftir hraðar sóknir í fyrri hálfleik sem kom sér vel því uppstilltur sóknarleikur var misjafn.Hann var þó enn verri hjá Haukum fyrir utan upphafsmínútur leiksins. Þeim gekk afar illa að opna framliggjandi vörn Stjörnunnar og ekki bætti úr skák fyrir þær að Klaudia Pogawa varði frábærlega í marki Garðbæinga. Hún var með 50% markvörslu í fyrri hálfleik. Að honum loknum var Stjarnan tveimur mörkum yfir, 12-10.Sóknarleikur Hauka var miklu betri í seinni hálfleik en í þeim fyrri. Þórhildur Braga Þórðardóttir og Guðrún Erla Bjarnadóttir léku vel í Haukasókninni en hinum megin dró Þórhildur Gunnarsdóttir vagninn. Hún skoraði sjö mörk í leiknum, þar af fimm í seinni hálfleik.Spennan var mikil í seinni hálfleik. Haukar jöfnuðu um miðbik hans og Guðrún Erla kom þeim svo yfir í fyrsta sinn í langan tíma þegar fjórar mínútur voru eftir, 21-22. Það reyndist síðasta mark Hauka í leiknum.Gestirnir nýttu síðustu sóknir sínar illa, hraðaupphlaup fór forgörðum og Þórhildur Braga tapaði boltanum í lokasókn Hauka.Stjarnan fékk tækifæri til að vinna leikinn en Tinna varði skot Þóreyjar Önnu Ásgeirsdóttur. Lokatölur 22-22 í hörkuleik.

Guðrún Erla var markahæst í liði Hauka með fimm mörk.vísir/bára
Af hverju varð jafntefli?

Þetta var þriðji leikur Stjörnunnar á einni viku og spilamennskan í seinni hálfleik bar þess merki. Stjörnukonur skoruðu sex mörk eftir hraðaupphlaup í fyrri hálfleik en ekkert í þeim seinni.Stjörnuvörnin gaf aðeins eftir um miðbik seinni hálfleik og þá hélt Klaudia ekki sama dampi og í þeim fyrri. Hún endaði með 15 skot og 44% hlutfallsmarkvörslu.Haukar bættu sóknarleikinn í seinni hálfleik og vörnin var lengst af sterk. Það vantaði þó herslumuninn til að taka bæði stigin.Hverjar stóðu upp úr?

Þórhildur var langbesti sóknarmaður Stjörnunnar en hún skoraði sjö mörk úr átta skotum. Sigrún Ása Ásgrímsdóttir átti góða innkomu á línuna og Klaudia var frábær lengst af.Eftir erfiðan fyrri hálfleik lék Guðrún Erla vel í þeim seinni. Þórhildur Braga var einnig góð í seinni hálfleik. Þá getur Tinna verið ánægð með sína frammistöðu. Hún varði 14 skot eða 39% þeirra skota sem hún fékk á sig.Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Hauka var rosalega stirður í fyrri hálfleik. Liðið náði sjaldan að vinna stöðuna maður gegn manni og opna þannig vörn Stjörnunnar. Það lagaðist mikið eftir hlé.Þórey Anna, sem hefur verið einn besti sóknarmaður Olís-deildarinnar í vetur, hefur oft leikið betur en í kvöld og var aðeins með tvö mörk úr opnum leik.Hvað gerist næst?

Á miðvikudaginn taka Haukar á móti ÍBV í 32-liða úrslitum Coca Cola-bikars kvenna. Næsti leikur Stjörnunnar er á föstudaginn þegar liðið sækir KA/Þór heim.

Sebastian sagði að kappið hefði verið skynsemi yfirsterkari hjá Stjörnunni í kvöld.vísir/bára
Sebastian: Dómararnir verða að fara að samræma sig

Sebastian Alexandersson, þjálfari Stjörnunnar, var ekki sáttur eftir jafnteflið við Hauka í kvöld.„Ég er mjög ósáttur. Það vantaði smá upp á kraft. Þetta var þriðji krefjandi leikurinn okkar á einni viku. Þær höfðu aðeins meiri orku í lokin,“ sagði Sebastian í samtali við Vísi.„Eins og venjulega spiluðum við frábæra vörn. Mér fannst við sundurspila þær á stórum köflum í leiknum en klikkuðum á alltof mörgum dauðafærum. Það hefur verið of mikið um það í vetur. Svo verða dómararnir að samræma sig betur. Það sem eitt par dæmir, annað dæmir það ekki. Ég var alveg „lost“ með sumt í dag en það hafði ekkert með leikinn að gera.“Miðað við frammistöðuna sagði Sebastian að Stjarnan gæti verið nokkuð sátt með eitt stig út úr leiknum.„Því miður spiluðum við ekki betur en þetta en fengum samt stig. Er ekki sagt að það sé einkenni góðra liða; að spila illa og tapa ekki. Við tökum stigið en mér fannst við geta gert betur,“ sagði Sebastian.„Mér fannst við geta nýtt færin betur. Svo vorum við að reyna of erfiða hluti. Kappið var oft meira en skynsemin. En heilt yfir fengum við fín færi til að loka leiknum en hleyptum þeim alltaf inn í hann. Þetta er fimmti leikurinn í röð þar sem við fáum ekki það sem við viljum út af færanýtingu.“Sebastian var með skilaboð til fjölmiðla eftir viðtalið.„Ég er með eina vinsamlega fyrirspurn ef ég má bæta við. Smá innlegg í umræðuna um þjálfara og viðtöl. Ég tók eftir því að mönnum var heitt í hamsi þegar Bjarni Fritzson [þjálfari karlaliðs ÍR] mætti ekki í viðtöl um daginn. Þetta er meira í gamni en samt ekki. Nú er þetta 8. umferð og ég hef mætt í viðtöl eftir hvern einasta leik. Má ég spyrja hvar eruð þið búnir að vera?“ spurði Sebastian.

Árni vildi fá aukakast í lokasókn Hauka.vísir/bára
Árni: Spiluðum þær niður í 6-0 vörn

„Mér fannst þetta ekki sanngjarnt. Ég er kannski frekur en ég hefði gjarnan vilja vinna leikinn. Við komum upp á hárréttum tíma í seinni hálfleik,“ sagði Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn.„Svo voru lítil atriði eins og þetta fríkast í lokin sem ég var að tuða yfir. Heilt yfir var þetta frábær leikur tveggja góða liða en ég hefði viljað taka bæði stigin.“Þórhildur Braga Þórðardóttir tapaði boltanum í lokasókn Hauka. Árni sagði að Haukar hefðu átt að fá aukakast þá.„Tóta segir mér að það hafi verið slegið í höndina á sér og ef svo er á það bara að vera aukakast. Þetta leit kannski ekki út fyrir að vera mikið. Litlu atriðin skilja oft á milli í svona leikjum. Við hefðum skorað ef við hefðum fengið aukakast. Ég er alveg sannfærður um það,“ sagði Árni.Sóknarleikur Hauka var mjög stirður í fyrri hálfleik en miklu betri í þeim seinni.„Við vorum undirbúin fyrir báðar varnirnar þeirra, 6-0 og 3-2-1. Mér fannst draga aðeins af þeim í seinni hálfleik og það sannaðist að þær voru aðeins lúnar eftir vikuna,“ sagði Árni.„Við spiluðum þær niður í 6-0 vörnina sem hentar okkur vel og ekki vel. Við náðum yfirhöndinni í seinni hálfleik og mig langaði að vinna.“

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.