Menning

Sauð­fjár­bóndi fær bók­mennta­verð­laun fyrir fyrstu ljóða­bókina

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Harpa Rún Kristjánsdóttir hlaut í dag Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2019 fyrir ljóðahandritið Eddu. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, veitti verðlaunin sem nema 800 þúsund krónum.

Harpa Rún Kristjánsdóttir er fædd árið 1990. Hún lauk meistaraprófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2018 og fjallaði lokaritgerð hennar um íslenskar ólandssögur eða staðleysur og þróun þeirra. Harpa Rún er uppalin í sveit undir Heklurótum og býr þar enn og starfar á sauðfjárbúi. Hún er einnig lausakona í ritstjórn og prófarkalestri.

Harpa Rún hefur skrifað ljóð í tvær ljósmyndabækur á íslensku og ensku og ljóð eftir hana hafa einnig birst í tímaritum. Edda er hennar fyrsta ljóðabók en bókin kemur út á verðlaunadaginn hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Alls bárust 58 óbirt ljóðahandrit í samkeppnina undir dulnefni. Dómnefndina skipuðu Sif Sigmarsdóttir formaður, Þórarinn Eldjárn og Börkur Gunnarson.  

Í niðurstöðu dómnefndar segir:

Edda eftir Hörpu Rún Kristjánsdóttur er látlaust verk um dramatískustu andartök hverrar mannsævi; upphaf hennar og endi. Í bókinni fylgist ljóðmælandi með nýju lífi kvikna er annað fjarar út. Klemmdur milli upphafs og endis, nýkviknaðs lífsneista og kulnaðs báls, kemur hann auga á hliðstæður.

Ljóðin ferðast milli fyrstu augnablika lífsins til þeirra síðustu. Bjargarleysi barnsins kallast á við vanmátt og minnisleysi elliáranna. Orðin er og var eru bergmál sem kasta milli sín treganum. Gleðin og sorgin takast á, tvinnast saman og verða loks eitt. Því rétt eins og Eddurnar tvær sem bókin fjallar um – sú unga og sú aldna – hefði önnur ekki orðið til án hinnar.

Greina má í ljóðunum sátt við gang lífsins þótt hann sé sársaukafullur, nýtt líf kviknar þegar það gamla slokknar.

Edda er heillandi og hófstillt verk þar sem hugsanir um æsku og elli fléttast saman, vega salt. Þræðirnir bindast og mynda vef sem sýnir okkur í nýju ljósi svo margt sem við þóttumst vita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×