Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Fjölnir 99-75 | Haukar pökkuðu nýliðunum saman

Ísak Hallmundarson skrifar
Kári Jónsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld.
Kári Jónsson og félagar unnu öruggan sigur í kvöld. vísir/daníel
Haukar tóku á móti Fjölni á Ásvöllum í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Fyrir leikinn höfðu Haukar unnið tvo leiki en Fjölnir einn leik, af fyrstu þremur leikjum mótsins. Fór það svo að Haukar jörðuðu nýliða Fjölnis í kvöld. Lokatölur 99-75 heimamönnum í vil. Victor Lee Moses, framherji Fjölnis, var ekki með í leiknum vegna meiðsla sem hann varð fyrir gegn KR í síðustu viku.

Það voru heimamenn úr Hafnarfirði sem byrjuðu leikinn betur og komust snemma í níu stiga forystu, 13-4. Fjölnismönnum gekk illa að hitta í körfuna og réðu ekkert við Flenard Whitfield miðherja Hauka, sem var þá strax búinn að setja niður 10 stig.

Fjölnismenn hresstust aðeins sóknarlega og náðu að jafna leikinn í 17-17 og komust svo yfir í 22-24 áður en Haukar jöfnuðu undir lok 1. leikhluta. Staðan eftir 1. leikhluta 24-24. Annar leikhluti byrjaði rólega en Haukar náðu síðan nokkrum tökum á leiknum og komu sér í 8 stiga forystu 39-31 og 41-33. Flenard hélt áfram að stríða Fjölnismönnum undir körfunni og Kári Jónsson setti niður 8 stig fyrir Hauka í þessum leikhluta.

Hinu megin á vellinum voru Srdjan Stojanovic og Jere Vucica stigahæstir fyrir Fjölni, voru með 14 stig hvor eftir annan leikhluta. Fjölnismenn náðu aðeins að laga stöðuna fyrir lok fyrri hálfleiks og var staðan í hálfleik 48-44 Haukum í vil. Mikið um villur og vítaskot á báðum endum í þessum fyrri hálfleik og hvorugt lið að spila neitt frábærlega.

Heimamenn byrjuðu seinni hálfleik heldur betur af krafti. Þeir settu niður fjórar þriggja stiga körfur í röð á fyrstu þremur mínútunum, draumabyrjun fyrir þá en martröð fyrir gestina. Stojanovic svaraði fyrir Fjölni með tveimur þristum í röð og hélt það gestunum inni í leiknum í bili. Fjölnir náðu að minnka 15 stiga forskot Hauka niður í 9 stig en Kári Jónsson setti þá niður þriggja stiga flautukörfu til að loka 3. leikhlutanum og staðan 76-64 þegar liðin fóru inn í 4. leikhluta. 

Haukamenn náðu algjörlega að loka á Fjölni í 4. leikhluta og kom rúmur 5 mínútna kafli þar sem gestirnir skoruðu ekkert úr opnum leik. Það leiddi til stórsigurs Hauka, 99-75.

Flenard Whitfield var stigahæstur í leiknum með 30 stig fyrir heimamenn, auk þess að taka 12 fráköst, en á hinum endanum var Srdjan Stojanovic með 29 stig fyrir Fjölni. Þá átti Kári Jónsson flottan leik með 19 stig, 4 fráköst og 8 stoðsendingar. 

Flottur sigur Hafnfirðinga sem líta nokkuð vel út í byrjun móts, en Fjölnir hefur núna tapað tveimur leikjum í röð með miklum mun eftir ágætis byrjun á mótinu.

Hvað gerist næst?

Haukar eiga leik gegn Þór á erfiðum útivelli í Þorlákshöfn í næstu umferð á meðan Fjölnir tekur á móti stigalausi liði Grindavíkur í næstu umferð. Mikilvægir leikir fyrir bæði lið en Haukar vilja eflaust blanda sér enn frekar í toppbaráttuna með sigri og þá vilja Fjölnismenn væntanlega koma sér frá neðstu liðum með sigri í sínum leik. 

Isreal Martin, þjálfari HaukaVísir/Ernir
Israel Martin: Erum komnir á þann stað sem við viljum vera á

„Á heildina litið stóðum við okkur vel í kvöld. Fjölnir er lið sem spilar á háu tempói og við þurftum að hægja á þeim og spila góða liðsvörn. Við héldum þeim í 75 stigum og 11 stigum í 4.leikhluta, það hefur mikla þýðingu fyrir mig. Við erum að komast á það stig sem við viljum vera á,“ sagði Martin sáttur að leikslokum.

Hann taldi að viljinn og vinnusemin í seinni hálfleik hafi skilað þeim sigrinum.

„Við vorum skipulagðari og sýndum meiri vilja og karakter í seinni hálfleik. Við erum að vinna samkvæmt varnarplaninu okkar og erum að verða betri. Ég held að aukin vinnusemi, sérstaklega í síðasta leikhlutanum hafi verið lykillinn að þessum sigri.‘‘

Falur Jóhann Harðarson: Mölbrotnuðum í seinni hálfleik

Falur Jóhann þjálfari Fjölnis var ekki sáttur með spilamennsku síns liðs í seinni hálfleik.

„Ég er bara ósáttur við hvað við brotnuðum niður í seinni hálfleik. Það er eflaust hægt að finna einhverjar ástæður fyrir því en ég er ósáttur hvernig við komum inn eftir hálfleikinn.“

Haukar settu niður fjóra þrista í byrjun seinni hálfleiks sem hefur væntanlega ekki verið draumabyrjun fyrir Fal og hans menn.

„Við komum bara alltof flatir út. Það er ekki eins og við værum ekki búnir að fara nógu mikið yfir það hvað við ætluðum að gera í seinni hálfleiknum. Þeir tóku þetta 12-2 áhlaup á okkur og það var það sem munaði eiginlega allan seinni hálfleikinn.“

„Ég get tekið fullt af jákvæðum og fullt af neikvæðum hlutum út úr þessum leik en það sem ég tek út aðallega er það hvað við mölbrotnuðum í seinni hálfleik. Ég veit að það er flókið að spila þegar það vantar stóran bita en þetta er liðið sem við vorum með í dag og við hefðum getað gert betur,“ sagði Falur að lokum.





Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira