Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍR 103-74 | Garðbæingar ekki í vandræðum með ÍR

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð.
Úr leik liðanna á síðustu leiktíð. vísir/bára
Stjarnan vann ÍR í Mathús Garðabæjar-höllinni í kvöld í annarri umferð Dominosdeildar karla. ÍR-ingar létu finna fyrir sér og héldu í við Stjörnuna framan af en heimamenn söltuðu leikinn í seinni hálfleik og unnu að lokum 103-74.





ÍR-ingar voru framan af ágætir, mættu sókndjarfir til leiks og þá sérstaklega fyrrum liðsmaður Stjörnunnar, Collin Pryor. Hann fór fram með offorsi í fyrri hálfleik, skoraði 18 stig, þ.a. átta stig í röð í öðrum leikhlutanum. Gestirnir voru samt slakir í vörn og staðan var því 57-44 þegar hálfleiksflautan gall.





Þrátt fyrir ýmsar varnarútfærslur og tilbrigði hér og þar hjá Breiðhyltingum í seinni hálfleik réðu þeir ekkert við sóknarþunga og stærð Stjörnumanna sem áttu á köflum miklu auðveldara með að skora sínar körfur en ÍR.





Þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks var staðan orðin 97-68 og þá tæmdu þjálfarar beggja liða bekkinn sinn og leyfðu ungum reynsluminni leikmönnum sínum að spreyta sig. Staðan breyttist lítið við það og svo fór sem fór. Sterkur Stjörnusigur staðreynd.





Af hverju vann Stjarnan?





Stjarnan var einfaldlega öflugri í þessum leik. Margir leikmenn lögðu til gott framlag fyrir liðsheildina og ÍR-ingar gátu illa stöðvað hraðlestina eftir að hún var farin af stað. Frábær skotnýting og gott boltaflæði hjá Garðbæingum vann þennan leik.





Bestu menn vallarins





Kyle Johnson var funheitur í þessum leik þó að stigaskorið gefi það ekki endilega til kynna. Hann hafði skorað 12 stig áður en hann klikkaði á skoti og setti niður 5 þriggja stiga skot í aðeins 8 tilraunum (62,5% þriggja stiga nýting). Hann lauk leik með 21 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendingar. Hlynur Bæringsson og Jamar Akoh voru líka öflugir með sitt hvora tvöfalda tvennuna (Hlynur með 15 stig og 12 fráköst og Jamar með 20 stig og 11 fráköst).





Hjá ÍR var Georgi Boyanov framlagshæstur með 20 stig og 9 fráköst. Collin Pryor var sömuleiðis ágætur með 18 stig. Aðrir leikmenn voru heldur daprari hjá gestunum.





Tölfræði sem vakti athygli





Stjarnan hitti úr níu fleiri skotfærum í fimm færri skottilraunum, 39/68 skot utan af velli (57,4% skotnýting) gegn aðeins 30/73 (41,1%) hjá ÍR. Garðbæingar fráköstuðu líka miklu betur (48 gegn 26 fráköstum) gegn smærra liði ÍR-inga.





Hvað gekk illa?





ÍR átti í erfiðleikum með að hemja sókn Stjörnumanna, sem sést kannski best á að heimamenn skoruðu 57 stig í hálfleik. Vörn Stjörnunnar var þó ekkert sérstök framan af, enda leyfðu þeir 44 stig í fyrri hálfleik. Léleg vörn hjá báðum liðum mest allan leikinn.





Hvað næst?





Stjarnan á fyrir höndum sér ferðalag á Sauðárkrók þar sem að þeir munu mæta Tindastóli í næsta leik. ÍR á í vændum Reykjavíkurslag í næsta leik þar sem að þeir bjóða Valsmönnum heim í Hertz-hellinn.

Arnar Guðjóns: Erum ekki komnir þangað sem að við viljum vera
Arnar Guðjónsson var temmilega sáttur eftir góðan sigur sinna manna á ÍR-ingum í Ásgarði í kvöld, 103-74. Hann tók rólega í spurningu um hvort að Stjarnan hefði ekki hærri gír. „Sko, ég ætla að vona að við verðum betri, en ÍR-ingar gerðu okkur mjög erfitt fyrir í dag. Réðum illa við þá á köflum,“ sagði Arnar en ÍR-ingar stóðu aðeins í Stjörnunni í fyrri hálfleik.





„Það voru hlutir sem að þeir gerðu sóknarlega sem við réðum illa við í fyrri hálfleik og við áttum ekkert svar við Collin,“ sagði Arnar og vísaði þar í fyrrum leikmann sinn Collin Pryor. Collin skoraði 18 stig í fyrri hálfleiknum en gat ekki fundið körfuna í seinni hálfleik og lauk því leik með þau 18 stig. „Við náðum að gera nokkrar lagfæringar í seinni hálfleik,“ sagði Arnar stuttlega um hvað hefði breyst eftir hálfleiksskiptin.





Arnar talaði um eftir síðasta leik að Stjarnan væri enn að finna taktinn en þeir voru kannski aðeins nær taktinum sínum í þessum leik. „Við erum ekki komnir þangað sem að við viljum vera. Ekkert lið er þar í október. Takturinn er ekki ennþá þar sem við viljum hafa hann,“ sagði hann.





Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Tindastóli á Sauðárkróki en Arnar segir að undirbúningur fyrir þann leik byrji núna. „Gott að halda sig við einn í einu,“ segir hann og kveðst ætla að horfa á leiki Tindastóls um helgina. Hann henti þó í vel stuðlaða kveðju norður áður en hann þakkaði fyrir sig; „Gott lið, góðir strákar, góður þjálfari og gott að koma á Krókinn, gott fólk þar.“





Borche: Erum að leita að leiðtogaBorche Ilievski, þjálfari ÍR, var greinargóður í leikslok eftir að lið hans lét í minni pokann gegn Stjörnunni, 103-74. Hann vísaði mikið í hversu nýr stór hluti hópsins væri og að nýrra áherslna væri þörf.





„Við erum að leita að leiðtoga,“ sagði Borche eftir stopular frammistöður erlendra atvinnumanna liðsins. Enginn þeirra átti sérstaklega góðan leik þó að allir hafi á stuttum köflum verið ágætir. „Ég þarf meira frá atvinnumönnunum mínum, sérstaklega Evan. Hann hefur átt erfitt uppdráttar,“ segir Borche og vísar þar í Evan Singletary, bandarískan leikmann liðsins. Evan skoraði aðeins sjö stig í leiknum og fann sig aldrei í sókninni né í vörninni.





Þó að fyrri hálfleikurinn virtist skárri þá tók Borche ekki endur þá greiningu. „Nei, ekki svo mikill munur á fyrri og seinni hálfleik. Við reyndum svæðisvörn í seinni hálfleik en okkur gekk ekki vel að dekka hornin. Lið sem eru 10-14 stigum yfir skjóta líka yfirleitt af öryggi gegn svæði,“ sagði hann og hafði þar lög að mæla.





Borche heillaði marga á seinasta tímabili með því að koma ÍR-ingum alla leið úr 7. sæti deildarkeppninnar í oddaleik í úrslitarimmunni gegn KR. Á þessu ári hefur hann þó allt annað lið í höndunum. „Nýtt lið, nýjar áherslur,“ segir hann og yppir öxlum. Liðið hefur misst 6 af bestu leikmönnum sínum síðan á síðasta tímabili og stjórn ÍR hefur ekki náð að finna nægilega marga leikmenn til að fylla í tómið sem að þeir skilja eftir sig. „Ég er þó ánægður með æfingarákefðina. Við höldum í jákvæðnina og reynum að halda okkur í keppninni. Við getum gert miklu betur, erum að gleyma kerfum og skipta illa í vörn. Erum að reyna að finna okkur upp á nýtt,“ segir makedónski þjálfarinn sem hefur komið sér vel fyrir í Breiðholtinu og býst við miklu meiri vinnu áður en ÍR nær að sækja sinn fyrsta sigur.





„Við verðum að vaxa á þessu tímabili, þetta er uppbyggingartímabil. Það skiptir líka máli að búa til nýja leikmenn, fjárfesta í framtíðinni. Ég hef eiginlega ekkert að athuga við vinnuframlag á æfingum, allir eru að taka á því. Ég þarf bara að sjá meira í leikjunum.“

Collin: Tók bara tækifærið þegar að það kom
Collin varð deildar- og bikarmeistari með Stjörnunni á síðasta tímabili.vísir/bára
Collin Pryor átti sæmilegan leik gegn sínu gamla liði, Stjörnunni, þegar hann og ÍR-ingar mættu í Mathús Garðabæjar-höllina í kvöld. Hann og liðið hans voru þó ekki betri en svo að þau töpuðu heldur stórt, 103-74.





Í sumar yfirgaf Collin Stjörnuna í leit að nýjum áskorunum og fann sitt nýja heimili í Breiðholtinu hjá ÍR. Það væri alveg skiljanlegt ef að taugarnar hefðu sagt til sín í leik sem þessum, á gamla heimavellinum hans. „Já, ég reyndi bara að halda mér jöfnum fram að leiknum. Auðvitað var ég spenntur og jafnvel kvíðinn að mæta aftur á þennan stað og í þetta umhverfi, en ég varð bara að halda mér góðum og jöfnum og vera einbeittur,“ sagði Collin.





Honum virðist hafa tekist áætlunarverkið, en hann skoraði 18 stig í leiknum og Stjörnumenn áttu erfitt með að hemja hann í fyrri hálfleik. „Ég tók bara tækifærið þegar að það kom, menn verða að grípa tækifærin,“ sagði hann um frammistöðu sína. Aðrir í liðinu áttu erfiðara með ná sér á strik, en Collin var ekkert allt of stressaður á því. „Svona er liðið okkar núna, menn verða bara að vera reiðubúnir að grípa tækifærið, stíga upp þegar liðið þarf á því að halda og taka ábyrgð,“ segir hann og bætir við: „Við vissum alveg hvað við höfðum í höndunum í þessum leik. Við undirbjuggum okkur vel en vissum að þetta væri sterkt lið og hvað við værum að koma okkur út í.“





Tvö töp í fyrstu tveim umferðunum eru samt ekkert heimsendir að mati Collins, allavega ekki í bili. „Ungt lið, nýtt lið, erum ennþá að slípa okkur til. Við verðum bara að læra það sem má læra af þessum leik, gleyma restinni sem fyrst og halda ótrauðir áfram,“ sagði Collin að lokum.

Tómas Þórður: Vissum að ef við spiluðum okkar leik yrði þetta sigur Tómas Þórður Hilmarsson var sáttur með sigurinn á ÍR í kvöld en gaf lítið fyrir það að þetta hefði verið einhvers konar hefnd eða neitt slíkt fyrir úrslitakeppnina á seinasta tímabili. „Nei, við vorum ekki mikið að pæla í úrslitakeppninni frá því í fyrra, þetta er líka bara allt annað lið en það var þá,“ sagði hann, en ÍR unnu oddaleik gegn Stjörnunni í Mathús Garðabæjar-höllinni í undanúrslitunum í fyrra.





Það sama var ekki upp á teningnum í þessum leik, enda unnu Stjörnumenn góðan sigur, 103-74. „Við vissum að ef við mættum og spiluðum okkar leik þá yrði þetta sigur. Þeir eru ekki með jafn gott lið og í fyrra. Fín byrjun. Var eiginlega ekki flóknara en það,“ sagði Tómas og hafði litlar áhyggjur af því að lið hans væri of gott of snemma á tímabilinu. „Planið er að toppa í úrslitakeppninni, við erum enn að komast í form og að slípa okkur vel saman,“ sagði hann.





Næsti leikur Stjörnunnar verður fyrir norðan heiðar á Sauðárkróki gegn Tindastóli og Tómas hlakkar til. „Já, alltaf gaman að gista í Varmahlíð. Fínt að fara ekki í janúar eins og í fyrra,“ segir hann kíminn að lokum og kveður.

Tengd skjöl

Bein lýsing

Leikirnir




    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.