Skoðun

Stærðfræðin opnar dyr

Svana Helen Björnsdóttir skrifar
Á þessu hausti eru 100 ár liðin frá stofnun stærðfræðideildar í Menntaskólanum í Reykjavík. Af þessu tilefni var nýverið haldið skemmtilegt málþing um notkun stærðfræði og mikilvægi góðrar stærðfræðikennslu á Sal MR.

Stærðfræði er nauðsynlegur grunnur að tæknilegri nýsköpun á mörgum sviðum. Það er engin tilviljun að frumkvöðlar í stafni tæknilegrar nýsköpunar og atvinnuþróunar á ótal sviðum skuli koma úr hópi tæknimenntaðs fólks með góðan stærðfræðigrunn. Flest þau fyrirtæki sem við Íslendingar erum hvað stoltastir af byggja á góðri stærðfræði- og raungreinaþekkingu.

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, flutti skemmtilegt erindi á málþinginu þar sem hann sýndi að stærðfræði er undirstaða gervigreindar og djúpnáms tölva, sem fjórða iðnbyltingin byggir á. Hún er nú hafin með tölvu- og reiknistuddri þjónustu af ýmsu tagi, m.a. fullsjálfvirkri framleiðslu, sjálfstýrðum skipum og bílum. Stærðfræði er stoð undir þessu öllu.

Nú hefur framhaldsskólanámi á Íslandi verið breytt verulega og það hefur m.a. verið á kostnað stærðfræði- og eðlisfræðikennslu sem hefur verið meiri í MR en sumum öðrum framhaldsskólum. Að mínum dómi hefur verið gengið of langt í því að skerða nám í þessum fögum. Sérkenni MR og annarra framhaldsskóla sem lagt hafa áherslu á raungreinanám hafa verið rýrð. Þetta hefur minnkað tækifæri þeirra mörgu metnaðarfullu nemenda sem hafa sett markið hátt í lífinu og vilja standast alþjóðlega samkeppni.

Góður stærðfræðigrunnur frá framhaldsskóla er eins og lykill sem opnar nemendum leið inn í „raungreinarýmið“. Slíkur grunnur auðveldar fólki nám, m.a. í verkfræði og hvers kyns raunvísindum en það eru einmitt þau svið sem eru undirstöður tæknilegrar nýsköpunar.

Miklu skiptir að stjórnvöld standi vörð um metnaðarfullt stærðfræðinám því það er forsenda þess að Íslendingar geti nýtt sér 4. iðnbyltinguna. Við þurfum að snúa af þeirri óheillavegferð sem stjórnvöld hafa, vonandi ómeðvitað, markað með því að takmarka verulega það nám sem í boði er í stærðfræði og raungreinum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×