Skoðun

Engin sjálfbærni án menningar

Constance Ursin, Rasmus Vestergaard, Claus Kjeld Jensen, Sarah Anwar og Varna Marianne Nielsen skrifa

,,Þýðingarmikið og virkt menningarlíf er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr til þess að endurbyggja það traust og þann trúnað sem hefur ríkt milli Norðurlandanna”, skrifa stjórnarformenn norrænu húsanna og menningarstofnana í Helsinki, Maríuhöfn, Nuuk, Reykjavík og Þórshöfn.

Í mars var haldið upp á dag Norðurlanda, dag norrænnar samheldni þar sem litið er til þess sem sameinar Norðurlöndin og möguleg sóknarfæri í samstarfi landanna skoðuð. Þar ætti menningin að leika miklu stærra hlutverk þegar samfélög okkar opnast aftur eftir heimsfaraldur. Menning hefur ekki einungis þýðingu fyrir lýðræðisleg og opin samfélög heldur er menningin í raun einn af grundvöllum norrænnar samvinnu frá upphafi. Mikilvægi menningar fyrir félagslega sjálfbært samfélag er líka hluti framtíðarsýnar um Norðurlöndin sem samþættasta svæði heims með stórtæku menningarsamstarfi.

Menningarlífið í löndunum okkar hefur orðið fyrir skakkaföllum og enn sjáum við ekki allar afleiðingar þessa. Við vitum að Norðurlöndin hafa nú þegar ráðstafað miklu fjármagni til þess að milda skaðleg áhrif sóttvarnaraðgerða á menningarlíf. Fjölmargir listamenn, stofnanir og fyrirtæki hafa misst innkomu sína. Ennfremur hefur tímabil sem einkennist af einangrun og takmörkunum sýnt okkur svart á hvítu hve mikilvægt menningarlíf er fyrir vellíðan fólks.

Allir geirar samfélagsins hafa á mismunandi hátt orðið fyrir barðinu af COVID-19, en menningargeirinn hefur orðið einstaklega hart úti þar sem að menningunni hefur verið meinað að leika sitt aðalhlutverk; að bjóða borgurum landsins upp á vettvang til að koma saman, vettvang sem er aðgengilegur öllum.

Hið norræna menningar- og listamannasamstarf er eini samstarfsvettvangur norrænnar samvinnu sem er algerlega sýnilegur og aðgengilegur borgurunum. Það er óþarfi að vera sérfræðingur til þess að geta upplifað og tekið þátt í menningarstarfi.

COVID-19 og viðbrögð Norðurlandanna við faraldrinum hafa nú þegar skaðað traust á milli nágrannalanda og það hefur verið áskorun að finna sameiginlegar lausnir á vandamálum, viðfangsefni sem hefur ávallt tíðkast í norrænu samstarfi, ekki síður á krepputímum. Það hefur verið erfið og óvenjuleg reynsla að upplifa lokuð landamæri milli Norðurlandanna.

Í þessu ljósi er óskiljanlegt að hið norræna samstarf ætli að beita niðurskurðarhníf að sínum eigin hálsi. Drög að fjárhagsáætlun, sem hefur verið sett fram af norrænu samstarfsráðherrunum fyrir árin 2021-2024, leggur til 20-25% niðurskurð af menningar- og menntunaráætlunum. Það er afar slæmt að skera niður fjárframlög til menningarmála á þessum tímapunkti þar sem að það er einmitt menningin og menningarsamstarf sem getur sameinað fólk og aukið skilning þess á milli.

Höfundar eru: Constance Ursin, stjórnarformaður Norrænu menningargáttarinnar í Helsinki, Rasmus Vestergaard, stjórnarformaður Nordens institut á Álandseyjum, Claus Kjeld Jensen, stjórnarformaður Nordens institut á Grænlandi, Sarah Anwar, stjórnarformaður Norræna hússins í Reykjavík, og Varna Marianne Nielsen, stjórnarformaður Norðurlandahússins í Færeyjum. Myndin sem fylgir greininni er af Söruh Anwar, stjórnarformanni Norræna hússins á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×