Skoðun

Hvað gerðist?

Bjarni Karlsson skrifar
Fyrst fæðist maður inn í einhverja fjölskyldu og býr þar í tuttugu ár. Öll hin árin er maður síðan að spyrja sig hvað var í gangi þarna?

Eitt algengasta sársaukaefni hins almenna manns varðar léleg samskipti við ástvini. Þar getur margt komið til og stundum er djúpt á lausnum. Eitt er ég þó alltaf að sjá sem mig langar að benda á:

Annars vegar eigum við flest okkar gömlu ástvini sem upphaflega voru í kjarnafjölskyldunni. Hins vegar eigum við líka gömul hlutverk innan fjölskyldunnar sem við báðum ekki um en fengum einhvern veginn í fangið. Margt fólk verður með tímanum svo langþreytt á hlutverki sínu innan gömlu fjölskyldunnar að það fer að hata það. Það nennir ekki lengur að vera alltaf þessi hressa og hjálpfúsa týpa eða tæknitröllið eða sáttamiðlarinn eða svarti sauðurinn eða samkomuhaldarinn eða tertu­skreytirinn eða hvar maður einu sinni lenti í hlutverkalottói fjölskyldukerfisins. Og þegar maður þolir ekki lengur gamla hlutverkið sitt er stutt í að manni líði eins og maður þoli ekki fólkið sitt. Þá þarf að tala saman og samþykkja eftirfarandi:

1. Við erum ekki lengur kjarnafjölskylda heldur stórfjölskylda og þurfum hvert á öðru að halda sem slík.

2. Við þurfum ekki að vera sammála um hvað gerðist.

3. Við þurfum ekki nauðsynlega að vera vinir. En þegar við komum saman að gefnum tilefnum eins og skírnum eða nafngjöfum, afmælum, ættarmótum, útskriftum, hjónavígslum og jarðarförum þá sýnum við hvert öðru virðingu. Punktur!

Með því að bera ábyrgð á sjálfum okkur og leyfa öðrum að bera ábyrgð á sér en varðveita virðinguna í samskiptum kynslóðanna hlúum við að tilfinningalegu langtímaminni stórfjölskyldunnar og verðum vitur og farsæl.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.